miðvikudagur 14. apríl 2010

Vísindaport: Hver er byggðavandi Vestfjarða og hvað er til ráða?

Í Vísindaporti föstudaginn 16. apríl mun Júlíus Arnarson fjalla um lokaritgerð sína til BA prófs í HHS (heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) frá Háskólanum á Bifröst, þaðan sem hann útskrifaðist árið 2008. Í ritgerðinni kannar Júlíus hver helstu vandamálin eru sem Vestfirðingar standa frammi fyrir vegna fólksfækkunar undanfarna áratugi, jafnframt því að skoða til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að styrkja byggð á Vestfjörðum undanfarin ár. Einnig er lagt mat á hvaða verkefni séu líklegust til árangurs í framtíðinni og framtíðarhorfur á Vestfjörðum skoðaðar í samræmi við niðurstöður.

Við gerð ritgerðarinnar dvaldi Júlíus í nokkra mánuði á Vestfjörðum og ræddi við alla bæjar- og sveitarstjóra Vestfjarðakjálkans, auk annarra einstaklinga sem komu að málefnum Vestfjarða með einum eða öðrum hætti. Mikil áhersla var lögð á að koma að verkefninu sem „óháður" aðili og greina aðstæður hlutlaust.

Júlíus er ættaður frá Hvammi í Dýrafirði en ólst upp í Garðabæ. Hann útskrifaðist frá Iðnskóla Reykjavíkur 1994 sem bakari og árið 2008 útskrifaðist hann frá Háskólanum á Bifröst með BA í HHS. Júlíus býr nú á Þingeyri og starfar sem kennari við Grunnskóla á Þingeyrar og þjálfar knattspyrnu hjá Íþróttafélaginu Höfrungi.

Vísindaportið hefst líkt og áður klukkan 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs. Allir velkomnir!

Júlíus Arnarson mun fjalla um byggðavanda Vestfjarða í Vísindaporti föstudaginn 16. apríl.
Júlíus Arnarson mun fjalla um byggðavanda Vestfjarða í Vísindaporti föstudaginn 16. apríl.