miðvikudagur 24. febrúar 2010

Vísindaport: "Einu skrefi lengra"

Í Vísindaporti föstudaginn 26. febrúar mun Etienne Gernez, meistaranemi við Háskólasetur Vestfjarða, fjalla um verkefnið "One Step Beyond" sem hann vann að síðastliðið sumar. Markmið verkefnisins var að safna dæmum og upplýsingum um það hvernig fólk getur tileinkað sér innihaldsríkari og sjálfbærari lífsstíl.

Etienne er upprunalega frá Normandí (Frakklandi) en starfar sem sjávarverkfræðingur í Noregi þar sem hann vinnur einkum með skipstjórum við að finna leiðir til að nota minna eldsneyti fyrir skip þeirra. Etienne er nú í námsleyfi og stundar meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Síðastliðið sumar varði hann þremur mánuðum í að ferðast um Noreg, Svíþjóð og Danmörku og safnaði upplýsingum og uppskriftum að því hvernig megi öðlast innihaldsríkara líf, með verkefninu „One Step Beyond", sem mætti þýða „Einu skrefi lengra".

Spurður út í verkefnið, lýsir Etienne því svo:
„Loftslagsbreytingar, hnattræn hlýnun, gjörnýting auðlinda, sjálfbærni, grænn þvottur. Hvað hefur þetta með mig að gera? Hvaða áhrif hefur þetta á mitt daglega líf? Allt í kringum mig heyri ég mismunandi viðhorf; fólk sem hefur áhyggjur af þessu, fólk sem hefur engar áhyggjur, sumir gera eitthvað í málunum en aðrir ekki.
Og ég spurði mig, hvað á ég að gera í þessari óreiðu?
Ég fékk mig full saddan af allskonar hótunum frá Al Gore, kvikmyndinni the Age of Stupid, efasemdarmönnum um hnattræna hlýnun og fleirum. Allt þetta er bull, auk þess sem venjulegt fólk getur ekkert gert til að hafa áhrif. Svo ég ákvað að fara af stað í leit að bjartsýni, hugmyndum, uppskriftum, hetjum og hvetjandi sögum.
Ég komst að því að vandamál dagsins í dag eru ekki endilega ný og að í grunninn snýst þetta bara um það hvernig við viljum lifa lífinu. Ég fann fólk sem neitar að sitja hjá aðgerðarlaust, og lítur frekar á vandamálin sem einstakt tækifæri til að hugsa, gera tilraunir, skiptast á hugmyndum og auðga líf sitt. Í erindi mínu á föstudaginn mun ég fjalla um þetta ferðalag mitt og deila með ykkur þeim lærdómi sem ég öðlaðist í leit minni að innihaldsríkara lífi."

Etienne Gernez fjallar um verkefnið
Etienne Gernez fjallar um verkefnið "One Step Beyond", eða "Einu skrefi lengra" sem hann vann síðastliðið sumar.