fimmtudagur 26. mars 2015

Vísindaport: Alvöru karlmenn

Erindið fjallar um líkamsstöðu karla og birtingarmyndir karlmennsku í ljósmyndum frá völdum  tímapunktum á 20. öldinni og til samtímans. Í fyrirlestrinum verður kynnt rannsókn á sögulegri þróun karlmennsku eins og hún birtist í uppstillingum íslenskra karlmanna fyrir framan linsu myndavélarinnar. Markmið verkefnisins var að safna og greina sjónrænar heimildir og setja í fræðilegt samhengi við rannsóknir á karlmennsku, líkamsmenningu og limaburð. Ólík karlmennska mótar líkamann með ólíkum hætti og ber svip af samfélagsaðstæðum og -breytingum. T.d. taldist karlmannlegt að standa í réttstöðu í byrjun 20. aldar og var til marks um styrk, sjálfstæði og jafnræði. Hálfri öld síðar þótti réttstaðan aftur á móti hallærisleg og alvöru karlmenn voru slakir og svalir. Í þessari rannsókn voru ljósmyndir af karlmönnum sem varðveittar eru í skjalasöfnum Austfirðinga og Ísfirðinga greindar í þessu tilliti. Þær voru svo bornar saman við myndir sem teknar voru sérstaklega fyrir rannsóknina af körlum í samtímanum. Þessir karlmenn voru myndaðir á Egilsstöðum, í Reykjavík og á Flateyri sumarið 2014. Myndir af þeim ásamt eldri ljósmyndum voru síðan sýndar í sundlauginni á Flateyri fyrr á þessu ári og hanga nú í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir er meistaranemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og fyrrum blaðamaður á Bæjarins Besta á Ísafirði. Hún hefur m.a. rannsakað staðartengsl fólks, það er hvernig fólk tengir sig við búsetustað sinn og/eða upprunastað; þjóðernisvitund; birtingarmynd karlmennsku í gegnum ljósmyndir; og er nú að safna ljósmyndum af glímumönnum frá árinu 1900 til 1960. Hún hefur áður haldið fyrirlestra um þessi rannsóknarefni bæði innan lands og utan.

Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.


Sæbjörg Freyja Gísladóttir verður gestur Vísindaports 27.04.2015
Sæbjörg Freyja Gísladóttir verður gestur Vísindaports 27.04.2015