fimmtudagur 4. febrúar 2010

Virðiskeðja sjávarútvegs á Sri Lanka

Gestur Vísindaports Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 5. febrúar er Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur. Í erindinu mun Gunnar kynna meistaraprófsritgerð sína sem ber titilinn „Value Chain of Yellow-fin Tuna in Sri Lanka". Í ritgerðinni er leitað svara við því hvort virðiskeðja sjávarútvegs á Sri Lanka sé hagkvæm og skilvirk og gerðar tillögur um hvað megi gera til úrbóta. Að vanda hefst Vísindaportið kl. 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs.

 

Viðfangsefni ritgerðarinnar er spennandi fyrir alla sem hafa áhuga á fiskveiðum og stjórnun þeirra, og þótt margt sé ólíkt með virðiskeðju sjávarútvegs Sri Lanka og Íslands eru grunnatriðin ávallt þau sömu. Það sem gerir sjávarútveg Sri Lanka áhugaverðan framar öðru er að heimsmarkaðurinn hefur aðeins nýlega rutt sér til rúms á eyjunni, en stutt er síðan veiðar voru nánast eingöngu stundaðar fyrir neyslu innanlands. Þarna myndast töluverð átök sem skapast af heimsmarkaðsverði, þar sem umtalsvert hærra verð er í boði, en á sama tíma eru gerðar miklar kröfur um gæði aflans. Slíkt er nýtt fyrir sjómönnum Sri Lanka og athyglisvert er að fylgjast með því hvernig þörf fyrir ýmis grundvallaratriði virðiskeðju kalla á aukna samvinnu, miðlun upplýsinga, menntun og þekkingu ásamt mikilvægi trausts manna í viðskiptum. Þarna togast á möguleiki til að stórauka verðmæti eða fullnægja þörfum heimamarkaðar fyrir fisk. Í ritgerðinni er einmitt tekið á því hvernig uppboðsmarkaður uppfyllir ekki alltaf best þarfir markaða fyrir afurðir þar sem gerðar eru miklar kröfur um gæði og afhendingu. Auðvelt er að finna samsvörun í slíku hér á landi og áhugavert að bera þetta saman.

 

Gunnar Þórðarson er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðlegum viðskiptum. Hann hefur meira og minna verið tengdur sjávarútvegi alla sína tíð, bæði sem atvinnurekandi og starfsmaður. Gunnar vann sem verkefnastjóri í fiskimálum fyrir Þróunar- og samvinnustofnun Íslands á Sri Lanka og Uganda en áður var hann starfsmaður Fiskistofu. Gunnar starfar nú hjá Kerecis á Ísafirði sem Operation Manager en fyrirtækið fæst við að þróa lækningavöru úr fiskpróteinum.