miðvikudagur 14. apríl 2021

Vinnustofa um rusl í sjónum á norðurslóðum

Háskólasetur Vestfjarða átti nokkra þátttakendur á tveggja daga vinnustofu sem var haldin af samstarfsneti innan Norðurslóðaháskólans um plastmengun í hafinu (UArctic Thematic Network on Marine Plastics). Yfir 60 þátttakendur voru skráðir til leiks en tilgangur vinnustofunnar var sá að kanna ólíkar þarfir fyrir menntun og rannsóknir sem snúa að rusli í sjó á norðurslóðum. Einnig var til umfjöllunar hvernig betur mætti samræma þetta tvennt við starf  Norðurheimskautaráðsins. Rannsóknastjóri Háskólaseturs, dr. Catherine Chambers, er þátttakandi í samstarfsnetinu um plastmengun og tók þátt í skipulagningu vinnustofunnar. Reynsla Háskólaseturs af kennslu á þessu sviði, með námskeiðinu Pollution in the Coastal Arctic, sem og rannsóknarverkefni nemenda á þessu sviði sýnir vel að Háskólasetrið hefur mikilvægu hlutverki að gegna á þessu sviði.

Plast í hafinu er talið meðal viðfangsefna sem samfélög og yfirvöld á norðlægum slóðum þurfa að huga að. Mikið rannsóknastarf er fyrir höndum á næstunni til að skilja til hlítar hættur sem stafa af rusli í sjónum og til að finna lausnir á viðfangsefninu. Einnig er ljóst að það er umtalsverð þörf fyrir að mennta næstu kynslóð vísindafólks á þessu sviði til að skapa hágæða rannsóknir sem hægt verður að nýta til að finna lausnir. Þremur nemendum Háskólaseturs var boðið að taka þátt í vinnustofunni og Mathis Blanche, annars árs nemanda í haf- og strandsvæðastjórnun, var boðið að vera fulltrúi nemenda í lokapallborðsumræðum. Í maí næstkomandi mun Mathis verja lokaritgerð sína um botnlægt sjávarrusl á Íslandi. Lokaverkefnið var unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun Íslands. Nemendur á borð við Mathis spila lykilhlutverk í því að leggja til mikilvægar hugmyndir á þessu sviði, bæði hvað varðar rannsóknir og kennslu.


Rusl í hafinu á norðurslóðum var viðfangsefni vinnustofu á vegum Norðurslóðaháskólans.
Rusl í hafinu á norðurslóðum var viðfangsefni vinnustofu á vegum Norðurslóðaháskólans.
1 af 2