fimmtudagur 13. október 2011

Vindur í seglum kynnt í Vísindaporti

Í Vísindaporti föstudaginn 14. október mun Sigurður Pétursson kynna nýútkomna bók sína Vindur í seglum: Fyrsta bindi sögu verkalýshreyfingar á Vestfjörðum og nær bókin yfir tímabilið 1890 - 1930.

Vindur í seglum segir frá fyrstu verkalýðsfélögum sem stofnuð voru á Vestfjörðum, viðbrögðum atvinnurekenda, kröfum verkafólks, hatrömmum pólitískum átökum, fyrstu rauðu bæjarstjórninni á Íslandi, verkfallsbaráttu og kosningasvindli.

Sigurður Pétursson er sagnfræðingur að mennt og hefur undanfarin ár unnið að skráningu skjalasafns á vegum verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, jafnframt söguritun hreyfingarinnar á félagssvæði Alþýðusambands Vestfjarða. Bókin Vindur í seglum er fyrsta bindi þeirrar sögu.

Vísindaportið sem er öllum opið er haldið í kaffistofu Háskólasetursins og hefst klukkan 12:10.

Kápa bókarinnar
Kápa bókarinnar