fimmtudagur 2. maí 2019

Viltu hýsa skiptinema í sumar?

Háskólasetur Vestfjarða leitar að fjölskyldum sem vilja opna heimili sín fyrir háskólanemum  frá Bandaríkjunum sem koma í vettvangsnám til Ísafjarðar tímabilið 16. – 30. júní 2019.

Hópurinn verður hér á vegum SIT skólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er samstarfsaðili SIT og nemendahópurinn dvelur í um sjö vikur á Íslandi og situr hér námsáfanga í endurnýjanlegri orku og umhverfishagfræði. Námið fer að mestu fram hér á norðanverðum Vestfjörðum og í Reykjavík.

Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, á Flateyri, í Hnífsdal, eða í Bolungarvík. Heimagisting hefur verið í boði hér á svæðinu undanfarin 8 ár og gefist mjög vel. Mikil ánægja hefur verið meðal fjölskyldna sem og gesta þeirra og góð tengsl hafa myndast.

Hver gestgjafafjölskylda fær greitt fyrir að taka þátt. Gesturinn þarf helst að fá sér herbergi og hann/hún þarf að fá morgun- og kvöldmat virka daga, en allar máltíðir um helgar.

Við hvetjum áhugasama til að hafa samband við Astrid Fehling, verkefnastjóra hjá Háskólasetrinu í síma 450 3043 eða astrid@uw.is. 


SIT students from the summer 2015
SIT students from the summer 2015