Vikulöngu íslenskunámskeiði lokið
Í síðustu viku sóttu sjö nemendur viku langt byrjenda námskeið í íslensku fyrir útlendingavið Háskólasetrið.
Nemendurnir sjö koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss og Ítalíu. Þrír þeirra búa á Íslandi en hinir komu sérstaklega til landsins og til Ísafjarðar til að sækja námskeiðið. Aðal kennari námskeiðsins var Ólafur Guðsteinn Kristjánsson sem hefur kennt á íslenskunámskeiðum Háskólaseturs um langt árabil.
Kennsluaðferðir námskeiðsins eru fjölbreyttar og lögð áhersla á að nýta vikuna sem allra best. Málfræðiæfingar, samtalsæfingar, kvikmyndasýningar og þjóðlög eru meðal efnis sem nemendur fást við á námskeiðinu. Einnig er lögð rík áhersla á að nýta sem best aðstæður á Ísafirði til að nemendur geti nýtt það sem þeir læra við raunaðstæður út í bæ.
Nemendurnir náðu miklum framförum á þessum fimm dögum og var árangri þeirra fagnað síðastliðinn föstudag með vöflum og harðfiski ásamt því að allir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku á námskeiðinu.
Framundan eru svo fjölbreytt íslenskunámskeið í ágúst. Enn eru laus sæti á öllum námskeiðunum sem í boði eru. Þriggja vikna byrjenda námskeiðið fer fram dagana 5.-23. ágúst, vikunámskeiðið 15.-20. ágúst, tveggja vikna framhaldsnámskeið 26. ágúst til 6. september og vikulangt námskeið fyrir lengra komna 6.-11. september. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu íslenskunámskeiðanna.