mánudagur 20. maí 2019

Vikulöngu íslenskunámskeiði lokið

Í síðustu viku sóttu sjö nemendur viku langt byrjenda námskeið í íslensku fyrir útlendingavið Háskólasetrið.

Nemendurnir sjö koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss og Ítalíu. Þrír þeirra búa á Íslandi en hinir komu sérstaklega til landsins og til Ísafjarðar til að sækja námskeiðið. Aðal kennari námskeiðsins var Ólafur Guðsteinn Kristjánsson sem hefur kennt á íslenskunámskeiðum Háskólaseturs um langt árabil.

Kennsluaðferðir námskeiðsins eru fjölbreyttar og lögð áhersla á að nýta vikuna sem allra best. Málfræðiæfingar, samtalsæfingar, kvikmyndasýningar og þjóðlög eru meðal efnis sem nemendur fást við á námskeiðinu. Einnig er lögð rík áhersla á að nýta sem best aðstæður á Ísafirði til að nemendur geti nýtt það sem þeir læra við raunaðstæður út í bæ.

Nemendurnir náðu miklum framförum á þessum fimm dögum og var árangri þeirra fagnað síðastliðinn föstudag með vöflum og harðfiski ásamt því að allir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku á námskeiðinu.

Framundan eru svo fjölbreytt íslenskunámskeið í ágúst. Enn eru laus sæti á öllum námskeiðunum sem í boði eru. Þriggja vikna byrjenda námskeiðið fer fram dagana 5.-23. ágúst, vikunámskeiðið 15.-20. ágúst, tveggja vikna framhaldsnámskeið 26. ágúst til 6. september og vikulangt námskeið fyrir lengra komna 6.-11. september. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu íslenskunámskeiðanna.


Nemendahópurinn ásamt Ólafi Guðsteini Kristjánssyni, kennara og Astrid Fehling, verkefnastjóra sem hefur veg og vanda að skipulagi íslenskunámskeiða Háskólaseturs.
Nemendahópurinn ásamt Ólafi Guðsteini Kristjánssyni, kennara og Astrid Fehling, verkefnastjóra sem hefur veg og vanda að skipulagi íslenskunámskeiða Háskólaseturs.
1 af 3