Vikulöngu íslenskunámskeiði lokið
Í dag er lokadagur vikulangs íslenskunámskeiðs sem hófst síðastliðinn mánudag. Námskeiðið er smátt í sniðum að þessu sinni með fimm áhugasömum nemendum frá Bandaríkjunum, Frakklandi og Þýskalandi. Nemendur hafa setið yfir námsefninu alla daga frá morgni til kvölds og hafa náð góðum árangi á þessum stutta tíma. Þeir eru því vonandi vel nestaðir til þess að byggja ofan á þekkinguna upp á eigin spýtur á næstunni.
Námskeiðið hefur að vanda verið fjölbreytt. Á morgnanna hafa nemendur einkum fengist við formlegt tungumálanám undir styrkri stjórn Ólafar Bergmannsdóttur íslenskukennara. Eftir hádegi og á kvöldin hefur námskeiðið svo verið brotið upp með stuttum námskeiðum um afmörkuð efni á borð við framburð, skyndihjálp, minningargreinar og búðarall. Í því síðastnefnda eru nemendur sendir út af örkinni og þurfa að láta reyna á kunnáttu sína í raunaðstæðum í verslunum bæjarins. Rétt er að koma á framfæri sérstökum þökkum til afgreiðslufólks verslana fyrir aðstoðina við íslenskukennsluna enda sannaðist í þetta skiptið líkt og svo oft áður að Ísafjörður allur er kennslustofa íslenskunemendanna.
Í águst fara svo fram mun fleiri íslenskunámskeið en þá verður boðið upp á tvö þriggja vikna byrjendanámskeið, tveggja vikna framhaldsnámskeið og svo tvö viku löng námskeið fyrir enn lengra komna nemendur auk vikulangs byrjendanámskeiðs.
Allar nánari upplýsingar um íslenskunámskeið Háskólaseturs má nálgast á vef þeirra.