fimmtudagur 11. desember 2008

Viðhorf og virðing í Vísindaporti

Á Alþjóðlega mannréttindadaginn, miðvikudaginn 10. desember, voru sextíu ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Föstudaginn 12. desember verður Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða því helgað þeim málefnum.


Rætur, félag áhugafólks um menningarfjölbreytni, Fjölmenningarsetur og Rauði krossinn á Vestfjörðum hafa í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða ákveðið að minnast þessara tímamóta undir yfirskriftinni „Viðhorf og virðing" og er þar vísað til 1. greinar yfirlýsingarinnar þar sem segir að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda er eigi verði af honum tekin.


Neikvæð viðhorf og fordómar leiða af sér bæði formlega og óformlega mismunun. Gestur Vísindaports þann 12. desember næstkomandi verður fulltrúi hóps sem orðið hefur fyrir skyndilegri viðhorfsbreytingu og sætt miklu aðkasti í starfi undanfarnar vikur. Það er Sigríður Jónsdóttir útibússtjóri Glitnis í Mosfellsbæ sem ræðir gjörbreyttar starfsaðstæður bankafólks vegna viðhorfsbreytingar viðskiptavina.


Sigríður hefur nær 30 ára reynslu af bankastörfum en hún hóf störf í Iðnaðarbankanum á Selfossi 1979. Hún hefur starfað sem útibússtjóri Glitnis í Mosfellsbæ, sem áður var Íslandsbanki, frá árinu 2002. Hún lauk á sínum tíma viðskipta- og rekstrarnámi frá Endurmenntun HÍ en lauk síðan MBA námi frá Háskóla Íslands í júní 2008. Lokaverkefni hennar í MBA náminu fjallaði um siðgæði í viðskiptum.

Að venju fer Vísindaportið fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og hefst að þessu sinni kl. 12.15 vegna prófa.