miðvikudagur 11. nóvember 2009

Viðhorf og staða innflytjenda á Íslandi

Gestur Vísindaports Háskólaseturs föstudaginn 13. nóvember er Ari Klængur Jónsson, verkefnastjóri hjá Fjölmenningarsetri á Ísafirði. Í erindi sínu mun hann kynna nýlega skýrslu um viðhorf og stöðu innflytjenda á Íslandi.

 

Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunar sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Fjölmenningarsetur. Um 800 einstaklingar af erlendum uppruna lögðu rannsókninni lið en markmið verkefnisins var að safna haldbærum upplýsingum um ýmsa þætti sem tengjast búsetu innflytjenda hér á landi. Spurt var m.a. út í atvinnu þeirra, menntun og reynslu, hvaða upplýsingar þeir höfðu fengið um réttindi sín og skyldur, skólagöngu barna þeirra, þátttöku í félagsstarfi, tungumálakunnáttu og viðhorf til ýmissa málaflokka, svo nokkur atriði séu nefnd.

 

Margt áhugavert kemur í ljós þegar niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar og verður m.a. varpað ljósi á eftirfarandi spurningar í erindinu:

  • Hve hátt hlutfall svarenda á sitt eigið húsnæði?
  • Hversu tekjuhár er þessi hópur landsmanna?
  • Hversu hátt hlutfall hefur skrifað undir ráðningarsamning?
  • Hafa þátttakendur áhuga á að læra íslensku?
  • Er áhugi fyrir því að taka þátt í starfi stjórnmálaflokks á Íslandi?

 

Í erindinu verður sérstök áhersla lögð á að greina mismun á viðhorfum þátttakenda eftir búsetu og, í heildina séð, hvort staða þátttakenda á höfuðborgarsvæðinu sé betri eða verri en þeirra á landsbyggðinni.

 

Að vanda hefst Vísindaportið kl. 12.10, það fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.

Styrktaraðilar rannsóknarinnar eru Alþýðusamband Íslands, félags- og tryggingamálaráðuneytið, Lýðheilsustöð, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og Þróunarsjóður innflytjendamála.