miðvikudagur 29. júní 2011

Vettvangsskóli frá Manitoba

Íslenski vettvangsskólinn frá Íslenskudeild Manitoba háskóla í Kanda dvelur um þessar mundir hjá Háskólasetri Vestfjarða og er þetta fimmta árið í röð sem vettvangsskólinn heimsækir Háskólasetrið. Líkt og síðustu ár fást nemendur við tungumálanám og íslenska samtíma- og miðaldamenningu. Á leslista námskeiðsins að þessu sinni eru t.d. skáldsagan Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og Gísla saga. Kennarar Íslenskudeildarinnar í Manitoba, þau Dr. Birna Bjarnadóttir og Peter John Buchan, sjá að mestu leyti um kennsluna en auk þess kemur fjöldi gestafyrirlesara til liðs við þau.

Íslenskudeild Manitoba háskóla fagnar um þessar mundir sextíu ára afmæli sínu og verður fjölbreytt dagskrá á vegum deildarinnar af því tilefni. Meðal annars verður nýtt tónverk frumflutt síðar á þessu ári eftir tónskáldið Matthew Patton sem slóst í för með hópnum til Íslands.

Að lokinni dvölinni á Vestfjörðum er ferðinni heitið norður í land og síðan á Austurland og að lokum dvelur hópurinn í Reykjavík áður en hann snýr aftur heim til Kanada.

Hópurinn í kaffistofu Háskólasetursins.
Hópurinn í kaffistofu Háskólasetursins.