miðvikudagur 9. júlí 2008

Vettvangsskóli frá Háskólanum í Manitoba

Þessa dagana dvelur hópur námsmanna frá Háskólanum í Manitoba við Háskólasetur Vestfjarða ásamt kennara sínum Birnu Bjarnadóttur dósent, sem veitir Íslenskudeild Manitobaháskóla forstöðu. Hópurinn hefur dvalið á Íslandi frá 26. júní en kom vestur síðastliðinn sunnudag og mun dvelja hér fram til þriðjudagsins 15. júlí. Dvöl námsmannanna á Íslandi er vettvangsnámskeið um íslenska menningu, með sérstaka áherslu á samband hennar við náttúru og umhverfi. Á þriðjudaginn hlýddu nemendurnir á fyrirlestur Sigurðar Péturssonar sagnfræðings um sögu Vestfjarða og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir félagsfræðingur fræddi þá um Vestfirði dagsins í dag.

Á meðan á Vestfjarðadvölinni stendur mun hópurinn einnig fræðast um Gíslasögu undir handleiðslu Birnu Bjarnadóttur, en jafnframt njóta góðs af þekkingu og sagnamiðlun heimamanna. Til dæmis mun hópurinn ganga um slóðir Gísla Súrssonar með Þóri Erni Guðmundssonar leiðsögumanni og sjá einleik Elfars Loga Hannessonar um Gísla. Framundan í dagskrá hópsins er einnig ferð í Vatnsfjörð í Djúpi þar sem annar vettvangsskóli verður heimsóttur, en í þessari viku hófst vettvangsskóli í fornleifafræði í Vatnsfirði. Þar munu nemendur hlýða á fyrirlestur Karenar B. Milek, umsjónarmanns fornleifaskólans, um íslenska fornleifafræði með sérstaka áherslu á Vatnsfjarðar verkefnið en einnig mun Torfi Tulinius prófessor við Háskóla Íslands flytja þeim fyrirlestur um sögu og menningu Vestfjarða.

Þetta er annað árið í röð sem vettvangsskóli frá Háskólanum í Manitoba dvelur við Háskólasetur Vestfjarða við nám um íslenska og vestfirska menningu, og vonandi að þessir aufúsu farfuglar komi hingað árlega áfram.

Sigurður Pétursson sagnfræðingur fræðir áhugasama nemendur um sögu Vestfjarða
Sigurður Pétursson sagnfræðingur fræðir áhugasama nemendur um sögu Vestfjarða
1 af 2