þriðjudagur 25. október 2016

Vettvangsskóli frá Franklin-háskóla í heimsókn

Vettvangsskólahópur á vegum Franklin-háskóla er kominn í fjögurra daga heimsókn í Háskólasetrið. Franklin er bandarískur háskóli staðsettur í Sviss og er þetta í þriðja sinn sem Háskólasetrið tekur á móti hóp frá skólanum. Íslandsferðin er í raun námskeið í umhverfisfræði „Understanding Environmental Issues: Iceland.“ Ísland og íslenskar aðstæður eru þar notaðar sem dæmi í kennslunni.

Dagskrá nemendanna er nokkuð þétt á meðan þeir dvelja hér á norðanverðum Vestfjörðum og með áþekku sniði og áður. Boðið verður upp á ýmsa fyrirlestra og kynningar tengdar viðfangsefninu. Orkubú Vestfjarða kynnir sína starfsemi og hópurinn fær að skoða bæði gömlu og nýju vatnsvirkjunina í Engidal, umhverfismál Ísafjarðarbæjar verða tekin fyrir sem ferðamannaiðnaðurinn á svæðinu. Hópurinn heimsækir fiskvinnslu Íslandssögu á Suðureyri en verður einnig boðið upp á matarsmökkun og kynnir sér hvernig unnið er að sjálfbærni í þorpinu. Menningu og sögu svæðisins verða einnig gerð skil með leiksýningu um Gretti og kynningu á ásatrú og fornum hefðum. 

Fagstjóri hópsins er sem fyrr Dr. Brack Hale. Auk þess að kenna umhverfisfræði er Brack mikill Íslandsvinur og hefur hann sótt íslenskunámskeið Háskólaseturs. Háskólasetrið býður Brack Hale og nemendur hans kærlega velkomin til Ísafjarðar og vonum að þau munu njóta dvalarinnar!


Nemendur Franklin háskóla ásamt Dr. Brak Hale á fyrsta degi í Háskólasetrinu.
Nemendur Franklin háskóla ásamt Dr. Brak Hale á fyrsta degi í Háskólasetrinu.