miðvikudagur 1. júlí 2009

Vettvangsskólanemar frá SIT dvelja við Háskólasetrið

Hópur nema frá School for International Training frá Vermont Bandaríkjunum kom í morgun í Háskolasetrið og mun nemarnir dvelja hér í ellefu daga. Dvöl þessa hóps er liður í sumarlöngu námskeiði, Renewable Energy, Technology, and Resource Economics in Iceland, sem fram fer hjá RES orkuskólanum á Akureyri, í Reykjavík og hér á Ísafirði. Er þetta er þriðja árið í röð sem Háskólasetrið tekur á móti hóp frá þessum skóla. Fagstjóri og umsjónarmaður er Dave Timmons, en hann hefur undanfarin ár haft umsjón með námskeiðinu. Sér til aðstoðar hefur hann Caitlin Wilson, verkefnastjóra hjá RES.


Nemarnir munu m.a. fá kynningu á starfsemi Orkubús Vestfjarða, hlýða á fyrirlestra, fara í vettvangsferðir, en einnig kynna sér sögu og menningu svæðisins. Þeir munu einnig vinna verkefni sem öll snúast um endurnýjanlega orkugjafa. Hafa ýmsir aðilar hér á svæðinu verið fengnir til aðstoða í þessari verkefnavinnu, bæði stofnanir og einkaaðilar. Niðurstöðurnar verða svo kynntar á opnum kynningarfundi sem haldinn verður föstudaginn 10. júlí. Nánari tímasetning verður auglýst er nær dregur.

 


SIT hópurinn ásamt Dave Timmons, fagstjóra.
SIT hópurinn ásamt Dave Timmons, fagstjóra.