þriðjudagur 3. júlí 2012

Vettvangsskólahópur frá Washington-háskóla í heimsókn

Þessa dagana dvelur hópur námsmanna frá Washington-háskóla við Háskólasetur Vestfjarða. Umsjón með hópnum hefur Dr. Phillip Thurtle og er þetta annar hópurinn sem þessi fræðimaður fylgir til Íslands, en hann kom hingað síðast sumarið 2009. Þessir nemar leggja stund á hugmyndasögu og er dvölin á Vestfjörðum liður í þverfaglegu vettvangsnámskeiði í hugmyndasögu, CHID (Comparative History of Ideas) Summer Program, þar sem fjallað er um sambandið milli manns og náttúru og þá sérstaklega samband íslenskrar menningar við náttúru og umhverfi. Námskeiðið er þverfaglegt og ýmsir fræðigreinar koma við sögu, svo sem sagnfræði, stjórnmálahagfræði, mannfræði, landafræði, bókmenntir, bókmenntafræði, menningarfræði og náttúrufræði.

Nemendurnir hlýða á ýmsa fyrirlestra, heimsækja söfnin á svæðinu og fræðast um Gísla Sögu Súrssonar með því að ganga um slóðir sögunnar með Þóri Erni Guðmundssyni leiðsögumanni og sjá einleik Elfars Loga Hannessonar um útlagann fræga. Þeir hafa einnig fengið nokkra inngangsfyrirlestra um íslenska tungu þar sem Peter Weiss fjallaði um orðsifjafræði, Ólöf Bergmannsdóttir kenndi nemendunum létta, hagnýta frasa og Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir kenndi framburð og hópurinn fékk einnig að syngja nokkur íslensk lög.

Við hjá Háskólasetrinu erum mjög ánægð að hafa fengið að taka á móti Phillip og nemendum hans og er það von okkar að hann snúi aftir hingað einhvern tímann á næstu árum ásamt nýjum hópi námsmanna.

Nemendahópurinn frá Washington-háskóla sótti byggðasafnið í Neðsta heim.
Nemendahópurinn frá Washington-háskóla sótti byggðasafnið í Neðsta heim.