mánudagur 30. mars 2015

Vettvangsnámskeið á Tálknafirði

Tveir kennarar voru á námskeiðinu þau Dr. Peter Krost, sem hefur kennt námskeið í fiskeldi hjá Háskólasetrinu áður, og María Maack. Dagarnir byrjuðu fyrir hádeginu með kennslu og umræðum um nýsköpun í fiskeldi. Meðal þess sem kennarar og nemendur veltu fyrir sér var hvað fái fólk til að stunda nýsköpun og hvernig nýsköpun er mismunandi hvort sem hugað er að ræktun nýrra tegunda eða bættri tækni og betri ferlum. Þar sem annar kennaranna, Dr. Peter Krost, hefur mikla reynslu af því að starfa við Eystrasaltið voru umhverfissjónarmið mikilvægur liður í hugmyndum um nýsköpun, t.d. að fyrirbyggja ofauðgun og vatnadauða með blandaðri ræktun skelja og þangs annarsvegar og fiskeldis hins vegar.


Eftir hádegi var farið í vettvangsferðir og rýnt í þætti sem sneru að viðkomandi fyrirtæki. Kvöldin voru svo frátekin fyrir þróun viðskiptahugmynda sem voru kynntar í lok námskeiðsins.


[mynd 3 h]Þar sem slíkt námskeið hefur aldrei verið kennt áður, renndu allir blint í sjóinn með það, þátttakendur, kennarar, skipuleggjendur hjá Háskólasetrinu sem og Tálknfirðingar. Það má þó segja að námskeiðið hafi heppnast vel. Dunhagi er eins og hannað fyrir námskeið sem þetta og ómetanlegt að hafa fyrirtæki sem starfa á öllum stigum ferlisins í einum og sama firðinum. Ekki sakaði heldur að hafa frábæra sundlaug Tálknfirðinga á næsta leiti.


Námskeiðið var styrkt af Sóknaráætlun landshluta.