Hópnum bauðst meðal annars að fara í þriggja tíma siglingu út í fiskeldiskvíar og fylgjast með fóðrun eldisfisksins.
Þar sem veðurútlitið var ekki sérlega gott annan daginn var ákveðið að fresta fyrirhugaðri ferð í Selárdal og fara þess í stað á Rauðasand og skoða strandlengjuna þar. Áður en haldið var á Rauðasand kom hópurinn við í Hvestu í Arnarfirði þar sem aðstæður skoðaðar á þeim slóðum sem lagt hefur verið til að olíuhreinsunarstöð rísi. Í kjölfarið hélt hópurinn svo á Rauðasand útbúinn nesti og regnfatnaði. Á Rauðasandi var nokkuð hvasst en að öðru leyti þokkalegt veður og töldu sumir nemendurnir það ekki eftir sér að kanna strandlengjuna með því að vaða fjöruborðið. Að lokinni tveggja tíma göngu var áð og hádegisverður snæddur. Dagurinn endaði svo með heimsókn í safnið að
Hnjóti í Örlygshöfn þar sem nemendur fengu innsýn í magnaðar skipbrotssögur af svæðinu. Eftir langa en vel heppnaða ferð notuðu margir tækifærið á leiðinni heim á Ísafjörð til að dotta á meðan rútan þræddi hina misgóðu vegi sunnanverðra Vestfjarða.
[mynd 3 h]Allt í allt var ferðin mjög vel heppnuð og voru nemendurnir hæstánægðir. Sérstakar þakkir eru færðar til Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra fyrir að taka sér tíma til að ræða við nemendur. Hið sama gildir um Jón Örn Pálsson sem tók höfðinglega á móti hópnum og veitti nemendunum ómetanlega innsýn í fiskeldi. Einnig fá staðarhaldarar og leiðsögumenn Skrímslasetursins á Bíldudal þakkir fyrir að leiða nemendur inn í heim íslenskra sæskrímsla og að lokum Sigurbjörg Ásgeirsdóttir, safnstjóri að Hnjóti fyrir magnaðar frásagnir af skipbrotum.