þriðjudagur 12. mars 2013

Vettvangsferð í fiskeldi

[mynd 1 h]Mánudaginn 25. febrúar fóru meistaranemar sem tóku valnámskeið um fiskeldi í vettvangsferð til að skoða sjókvíar fyrirtækisins HG í Álftafirði. Ferðin var farin í kjölfar kynningar sem Kristján G. Jókakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri fyrirtækisins, hélt fyrir nemendur um starfsemi HG í vikunni á undan.

Hópnum var skipt upp í tvennt og tóku Barði Ingibjartsson og Eiríkur Ragnarsson, starfsmenn fiskeldis HG, á móti hópunum í Súðavík og fylgdi þeim sjóleiðina að kvíum fyrirtækisins. Þar fengu nemendur tækifæri til að fylgjast með lifandi þorski í návígi, auk þess að spreyta sig á fóðrun eldisfiskanna. Það rigndi talsvert þennan dag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, en nemendur létu það ekki á sig fá og nutu sjóferðarinnar.

[mynd 2 h]„Vettvangsferðin var frábær og óaðskiljanlegur hluti af námskeiðinu. Ferðir á borð við þessa veita aðra innsýn í verklega þætti fiskeldis og styðja vel við fræðilega nálgun fyrirlestra námskeiðsins", sagði dr. Peter Krost kennari námskeiðsins að vettvangsferðinni lokinni. Aðspurður um aðstæður og umhverfi fiskeldis á Vestfjörðum sagði dr. Krost að gæði sjávar og löng strandlína Vestfjarða, með fjölda skjólgóðra fjarða, geri svæðið afar hentugt til fiskeldis. Hann bætti því jafnframt við að íbúar svæðisins virðast jákvæðir í garð fiskeldis. Engu að síður telur hann að ýmsar umhverfislegar hættur geti fylgt auknu fiskeldi. „Firðirnir hafa ekki allir nægjanlega mikla hreyfingu á vatni til að standa undir umhverfisvandamálum sem geta fylgt fóðrun í fiskeldi, svo sem súrefnisskorti sem getur komið upp við slíkar aðstæður."

[mynd 3 h]Námskeiðið var afar vel heppnað og dr. Krost var ánægður með dvölina á Ísafirði: „Auk vettvangsferðarinnar var hlutverkaleikur sem við settum upp í námskeiðinu ákveðinn hápunktur. Þar var fengist við raunsæar aðstæður sem tóku til umhverfisvandamála sem fylgja fiskeldi og þau sett í samfélagslegt samhengi. Hlutverkaleikurinn fól í sér vísindalega nálgun sem og nálgun sem snýr að ákvörðunartöku. Þetta féll í mjög góðan jarðveg hjá þessum virka og áhugasama nemendahópi", sagði dr. Peter Krost að lokum.

Háskólasetrið þakkar dr. Peter Krost kærlega fyrir kennsluna sem og fyrirtækinu HG fyrir höfðinglegar móttökur í vettvangsferðinni.

Í myndasafni hér á vefsíðunni má sjá fleiri myndir úr vettvangsferðinni.