fimmtudagur 8. september 2016

Vettvangsferð CMM nema á Hesteyri og Vigur

Veðrið lék við nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun síðastliðinn laugardag þegar lagt var upp í árlega vettvangsferð um Jökulfirði og Ísafjarðardjúp með Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar. Ferðin er lokahnykkurinn í inngangsnámskeiði um íslenskt samfélag, umhverfi og náttúruauðlindir.

Ferðin hófst kl. 10:00 þegar lagt var frá höfn á Ísafirði og haldið yfir að Hesteyri í Jökulfjörðum. Þar fræddust nemendur um náttúrufar og menningu á Hornströndum og Jökulfjörðum sem og lífið þar fyrr og nú. Þá var einnig fjallað um tilkomu Hornstrandafriðlandsins og grunndvallaratriði varðandi skipan þess. Á Hesteyri var gengið um þorpið og síðan inn að Stekkeyri þar sem minjar um reisumikla hvalveiðistöð standa enn. Hesteyri skartaði sínu fegursta og erfitt reyndist að slíta sig frá þessari paradís sem þennan dag bauð upp á hóp sela sem bökuðu sig í sólinni á steinum, hnísuhjörð sem kom alveg upp í landsteina, gaggandi tófu upp í fjalli að ógleymdum bláberjunum sem voru fullkomnlega þroskuð. En áfram þurfti að halda því næsti áfangastaður beið hópsins.

Haldið var af stað frá Hesteyri um klukkan 14 og stefnan tekin á eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi. Á leiðinni þangað var þó stoppað stutta stund til að fylgjast með hvölum sem léku sér í djúpinu. Þegar þar komið var í land Í Vigur var gengið um eyjuna og fræðst um náttúrufar hennar, ekki síst lundabyggðina og æðarvarpið. Gestgjafar í Vigur tóku svo á móti hópnum með rjúkandi kaffi og ilmandi bakkelsi. Að kaffinu loknu fengu nemendur að kynnast æðarbúskapnum betur og Salvar Baldursson bóndi í Vigur fræddi þá um dúntekju og dúnhreinsun.

Góður dagur var á enda runninn og hópurinn dreif sig um borð í Ingólf sem sigldi áleiðis heim á Ísafjörð.


Hópurinn á Hesteyri.
Hópurinn á Hesteyri.
1 af 3