föstudagur 21. nóvember 2014

Vestfirðir vinsæll áfangastaður fyrir vettvangsskóla

[mynd 1 h]Háskólasetrið hefur nánast frá stofnun aðstoðað erlenda vettvangsskóla við að undirbúa dvöl sína hér á svæðinu og boðið slíkum hópum aðstöðu. Bróðurparturinn af hópunum hefur komið á vegum háskóla í Norður-Ameríku, en einnig hafa þarna verið á ferðinni skólar frá löndum í Evrópu. Auk þess að sitja fyrirlestra og fara í vettvangsferðir tengdar viðkomandi námi vilja hóparnir fá góða kynningu á samfélagi, menningu og sögu svæðisins. Gjarnan er farið á söfnin og dagskrá tengd Gísla Sögu Súrssonar hefur verið vinsæl og var engin breyting á því í ár. Hér verður fjallað um hópana sem lögðu leið sína í Háskólasetrið á yfirstandandi ári í máli og myndum. Að lokum verður sagt frá fyrirhuguðum komum vettvangsskólahópa næsta sumar, 2015.

 

Fyrstur á svæðið þetta sumarið var School for International Training (SIT) frá Bandaríkjunum. SIT hóparnir hafa verið árlegir gestir síðan 2007 og sátu nemendurnir sem fyrr námskeið í orkutækni og umhverfisstjórnun, "Renewable Energy, Technology, and Resource Economics".  Auk fyrirlestra var farið í vettvangsferðir til að kynnast orkubúskap Vestfirðinga. Þrjár vikur af sjö á Íslandi fóru fram hér á Vestfjörðum og líkt og undanfarin tvö sumur var boðið upp á gistingu í heimahúsum fyrstu tvær vikurnar. Hópur ársins taldi 29 nemendur og var því nokkuð fjölmennur. Fagstjóri var Astrid Fehling, sem kennir eitt námskeið við námsbrautina í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið.

 

[mynd 2 h]Á meðan SIT hópurinn dvaldi hér fékk Setrið einnig gesti úr deild Norrænna fræða við Christian-Albrechts-háskólann (CAU) í Kiel í Slésvík-Holtsetalandi. Þessi 20 manna hópur dvaldi aðeins eina viku á landinu og varði fjórum dögum á Vestfjörðum, með gistingu í Breiðuvík og á Ísafirði.  Var þetta í þriðja sinn sem CAU sendi okkur hóp. Dagskráin var nokkuð þétt og var m.a. farið á Látrabjarg, í Selárdal og á Hrafnseyri. Gengið var að að jökulröndinnni í Kaldalóni og galdrasýningin Hólmavík var sótt heim. 

Í ágúst renndi í hlað hópur frá „Liberal Arts“-deildinni við Háskólann í Washington í Seattle í Bandaríkjunum. Tíu daga dvöl á Vestfjörðum var liður í þverfaglegu sumarnámskeiði í hugmyndasögu, "Regeneration: Matter, Myth, and Memory in Iceland" þar sem áhersla er á sambandið milli manns og náttúru, með Ísland sem dæmi. Veg og vanda af námskeiðinu hafði Prof. Phillip Thurtle og var þetta þriðji hópurinn sem hann fylgir til Vestfjarða. Gert er ráð fyrir að nýr CHID-hópur heimsæki Háskólasetrið að tveimur árum liðnum.

 

[mynd 3 h]Lauk vettvangsskólavertíðinni 2014 í október með stuttri dvöl hóps nemenda á vegum Franklin-háskóla í Sviss, sem sat námskeiðið  "Understanding Environmental Issues: Iceland". Var þetta fyrsti hópurinn frá þessum háskóla sem heimsótti Setrið og var Íslandsdvölin í raun námskeið í umhverfisfræði þar sem íslenskar aðstæður voru notaðar sem dæmi. Á dagskrá var m.a. ferð í Arnardal þar sem boðið var upp á blót að hætti ásatrúarmanna, nokkuð sem vakti mikla lukku meðal nemendanna, ekki síst sem norðurljósin prýddu himininn þetta kvöld. Fagstjóri hópsins var Dr. Brack Hale sem kennir líf- og umhverfisfræði. Hann er einnig mikill tungumálamaður og hefur setið námskeið í íslensku hjá Háskólasetrinu.

 

Ef við lítum svo að lokum aðeins fram á veginn þá eru að svo stöddu tveir vettvangsskólahópar bókaðir sumarið 2015. Hugsanlega munu svo fleiri hópar bætast við. Nýr hópur frá SIT mætir til leiks í júní og mun Háskólasetrið því leita til fjölskyldna á svæðinu um gistingu í heimahúsum fyrir þessa nemendur. Hópur á vegum Íslenskudeildar Háskólans í Manitoba í Kanada hefur einnig boðað komu sína. Fyrir hópnum fer Dr. Birna Bjarnadóttir ásamt Peter John Buchan sem kennir einnig við deildina. Birna hefur síðan 2007 vanið komu sína á Vestfirðina, á ferð sinni um landið með nema, en nú eru liðin tvö ár frá síðustu heimsókn. Í þessu námi er íslensk menning með áherslu á tengslin við náttúru og umhverfi í brennidepli. 

 

Fyrir frekari upplýsingar um þjónustu við vettvangsskólahópa er bent á vef Háskólaseturs. Það má gjarnan einnig hafa samband við Pernillu Rein verkefnastjóra í tölvupósti pernilla(hjá)uwestfjords.is