Verkefnastjóri ráðinn
Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra við Háskólasetur Vestfjarða í 50% starfshlutfall. 17 umsóknir bárust um starfið.
Sigþrúður hefur starfað síðustu ár á öllum stigum grunnskólans. Hún hefur tekið þátt í innra starfi skólans í gæða- og innramatsteymi og hefur tekið þátt í þróun nýrra kennsluhátta.
Sigþrúður, eða Sissú, eins og hún er jafnan kölluð, hefur lokið MT-gráðu, meistaragráðu í faggreinakennslu frá Háskóla Íslands og er innrituð í meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Þar á undan hefur hún lokið B.ed gráðu í grunnskólakennarafræði ásamt ýmsum fagtengdum endurmenntunarnámskeiðum.
Sigþrúður er vel tengd í samfélaginu á norðanverðum Vestfjörðum, hefur kennt bæði á Ísafirði og í Bolungarvík og er í stjórn Kvenfélagsins Hvatar og Þjóðbúningafélagi Vestfjarða.
Verkefnastjóri sinnir ýmsum verkefnum fyrir Háskólasetrið og mun til dæmis á komandi vori halda utan um ráðstefnu sem áætluð er. Einnig skipuleggur verkefnastjórinn vettvangsferðir og fyrirtækjaheimsóknir nemenda auk þess að halda utan um Vísindaport og geta allir sem áhuga hafa á að koma með erindi í Vísindaport gefið sig fram við nýjan verkefnastjóra á komandi ári.
Pernilla Rein sem gengt hefur starfi verkefnastjóra við Háskólasetrið undanfarin tæp 14 ár lætur af störfum um áramót og er henni þakkað kærlega fyrir vel unnin störf í gegnum árin hjá Háskólasetrinu. Pernilla mun nú alfarið snúa sér að störfum sínum við Menntaskólann á Ísafirði þar sem hún hefur einnig starfað undanfarið ár.