miðvikudagur 30. september 2009

Verkefnastefnumót Norðurslóðaáætlunarinnar

Fulltrúi frá Háskólasetri Vestfjarða tók þátt í verkefnastefnumóti Norðurslóðaáætlunarinnar (Northern Periphery Programme, NPP) sem haldið var á Höfn í Hornafirði dagana 21. og 22. september síðastliðinn. Meginmarkmið fundarins var að efla tengslanet íslenskra þátttakenda, bæta upplýsingaflæði og samstarf og fara yfir þátttöku Íslands í áætluninni og framkvæmd hennar hér á landi. Þátttakendur stóðu fyrir kynningum á verkefnum sínum, en fjölmargir íslenskir aðilar eru að vinna verkefni sem styrkt eru af NPP. Verkefnin spanna breitt svið, t.a.m vegagerð, umhverfisfræðslu, hagleikssmiðjur og loftslagsbreytingar svo nokkur dæmi séu tekin.

 

Háskólasetur Vestfjarða undirbýr umsókn um styrki til að vinna verkefni undir yfirskriftinni „Diversifying Marine-Based Emploment Opportunities in Peripheral Communities" (MBEO), eða „Fjölbreytni í sjávarbyggðum: Efling sjávartengdrar ferðaþjónustu." Aðdragandinn er sá að aðilar á Íslandi, Írlandi og í Noregi sendu inn umsókn um forverkefni ,með það að markmiði að móta ítarlega umsókn til NPP um þróunarverkefni undir sömu yfirskrift, haustið 2008. Að þessu forverkefni stóðu aðilar frá Háskólanum í Finnmörku, Alta í Norður-Noregi, Land og ferðamálastofu Háskóla Íslands og Teagasc byggðastofnunin í Galway sýslu á Írlandi, og leiddi síðastnefndi aðilinn forverkefnið. Ákveðið var að á Íslandi yrði lögð áhersla á sjávarbyggðir á Vestfjörðum. Haldinn var fundur á Ísafirði, í nóvember 2008, þar sem leitað var til fyrirtækja í sjávartengdri ferðaþjónustu á svæðinu um samstarf. Einnig voru Háskólasetur Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða þátttakendur í þessari vinnu.

 

Markmið þróunarverkefnisins var m.a að leiða í ljós tækifæri til nýsköpunar og verðmætaaukningar í greinum sem tengjast nýtingu sjávarauðlinda, að tengja saman menningararfleifð og staðbundna þekkingu heimafólks og að stuðla að yfirfærslu þekkingar á þessu sviði til annarra byggðarlaga á því svæði sem Norðurslóðaáætlunin tekur til. Tvennskonar starfsemi á sviði ferðaþjónustu þóttu einkum áhugaverð: Sjóstangveiðiferðamennska og hvers konar upplifunarferðamennska sem tengist neyslu sjávarafurða. Forverkefninu lauk síðastliðið vor og er nú komið að því að undirbúa umsókn um aðalverkefni. Þar sem Teagasc stofnunin neyddist til að hætta við þátttöku í aðalverkefninu þurfti að finna nýjan aðila til að leiða aðalverkefnið og var þá leitað til Háskólaseturs Vestfjarða um það.

 

Norðurslóðaáætlun er ein af fimm svæðaáætlunum Evrópusambandsins og nær hún yfir Ísland, Færeyjar, Grænland og Norður Írland í heild og yfir hluta Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands og Írlands. Er þetta eina svæðaáætlun Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í. Meginmarkmið áætlunar fyrir tímabilið 2007 - 2013 er að efla atvinnu-, efnahags- og félagslega samvinnu svæða og landa á norðurslóðum með samstarfsverkefnum sem ná yfir landamæri, milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Byggðastofnunar sem er tengiliður áætlunarinnar hér á landi. Einnig er bent á heimasíðu NPP.


Frá skoðunarferð sem þátttakendur stefnumótsins fóru í að Geitafelli í nágrenni Hoffellsjökuls.
Frá skoðunarferð sem þátttakendur stefnumótsins fóru í að Geitafelli í nágrenni Hoffellsjökuls.