þriðjudagur 29. nóvember 2022

Vel sótt málþing um Grímshús

Mánudaginn 28. nóvember hélt Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar málþing í Háskólasetri Vestfjarða. Tilefnið var opnun Grímshúss sem fræðaseturs á Ísafirði en þar munu fræðimenn geta dvalið við rannsóknir og skrif tengd norðurslóðaverkefnum.

Stjórn Stofnunarinnar kom af þessu tilefni vestur, ásamt forsætisráðherra, og skoðaði Grímshús, þar sem foreldrar Hr. Ólafs Ragnars bjuggu. Að fræðasetrinu standa einnig Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík og komu rektorar skólanna einnig vestur og tóku þátt í málþinginu, sem var vel sótt og áhugavert.

Þar kynnti Hr Ólafur Ragnar verkefnið sem og byggingu stofnunarinnar sem byggð verður í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Í máli hans kom fram að hafist verði handa við að auglýsa fræðadvöl í Grímshúsi eftir áramótin og standa vonir til að fyrsti fræðimaðurinn komi til Ísafjarðar næsta sumar, en í boði verður að dvelja þar í 2-6 vikur í senn. Eitt af því sem einkennir Grímshús umfram mörg önnur fræðasetur er hversu heimilislegt það er og gefur tækifæri til að fjölskyldur og vinir fræðimanna geti dvalið með þeim á Ísafirði, en húsið er staðsett við Túngötu og því í hjarta Ísafjarðar.

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs tók einnig til máls og benti á frábær tækifæri til samvinnu, en þeim sem koma til fræðadvalar í Grímshúsi stendur til boða vinnuaðstaða í Háskólasetrinu líka og er gert ráð fyrir að þau haldi fyrirlestur eða annað slíkt í Háskólasetrinu meðan á dvölinni stendur og auðgi þar með það þekkingarstarf sem fyrir er unnið í Háskólasetri Vestfjarða. Þá gefur slík dvöl tækifæri til frekari tengslamyndunar og mögulegra verkefna fyrir nemendur og kennara Háskólaseturs.

Á málþinginu var einnig gerður leigusamningur milli skólanna en HA mun hafa starfsaðstöðu hjá Háskólasetri fyrir starfsmenn og kennara sem vilja sækja Ísafjörð heim, enda mikið samstarf þar á milli nú þegar og mun nærvera þeirra einungis styrkja böndin. Það voru Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, sem undirrituðu samninginn en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, stjórnarformaður Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar, vottuðu undirskriftirnar.

Einnig kynntu vestfirsk fyrirtæki sig og verkefni sín, t.d. Kerecis og Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands sem og kennarar við Háskólasetur, Matthias Kokorsch og Jóhanna Gísladóttir sem kynntu ClicNord verkefni sitt. 

 

 


Fjölmenni var á málþinginu
Fjölmenni var á málþinginu
1 af 12