þriðjudagur 26. október 2010

Vel sótt Vísindaport með Þóroddi Bjarnasyni

Yfir fimmtíu manns sóttu Vísindaport með Þóroddi Bjarnasyni, prófessor við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, sem fram fór í Háskólasetrinu síðastliðinn föstudag. Auk þess var erindið sent út á vefnum svo fjöldi áheyrenda hefur án efa verið talsvert meiri. Þeir sem misstu af erindi Þórodds geta kynnt sér innihald þess með því að sækja skyggnusýningu sem hann studdist við eða með því að horfa á upptöku af því. Þess ber að geta að um það bil 5 mínútur vantar framan af upptökunni.

Í erindi sínu varpaði Þóroddur fram þeirri ögrandi spurningu hvort landsbyggðin hefði efni á höfuðborgarsvæðinu. Spurning Þórodds er tilraun til að líta byggðamál öðrum augum en hingað til hefur verið gert. Í máli hans kom greinilega fram að það viðhorf að höfuðborgarsvæðið haldi landsbyggðinni uppi fjárhagslega á ekki við rök að styðjast.

Fjölmennið í Vísindaportinu á föstudaginn má án efa rekja til þess stórfellda niðurskurðar sem nú er boðaður í fjárlögum, einkum í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, enda fjallaði erindi Þórodds m.a. um þetta efni.

Prófessor Þóroddur Bjarnason fjallaði m.a. um hinn umdeilda niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði er meðal þeirra stofnana sem verða illa úti í niðurskurðinum.
Prófessor Þóroddur Bjarnason fjallaði m.a. um hinn umdeilda niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði er meðal þeirra stofnana sem verða illa úti í niðurskurðinum.