föstudagur 31. maí 2013

Vel lukkað íslenskunámskeið

Í síðustu viku fór fram vikulangt íslenskunámskeið við Háskólasetur Vestfjarða. Þetta er í fyrsta sinn sem Háskólasetrið býður upp á slíkt námskeið að vori til en áður hafa vikululöng námskeið verið í boði í janúar og ágúst.

Sex nemendur voru skráðir á námskeiðið að þessu sinni og komu þeir víða að, frá Þýskalandi, Englandi, Litháen og Japan. Ólöf Bergmannsdóttir hafði umsjón með hefðbundinni bekkjarkennslu á morgnanna en auk hennar komu nokkrir kennarar að kennslu eftirmiðdagsnámskeiða. Þau námskeið eru með nokkuð öðru sniði en hin hefðbundna bekkjarkennsla og snúast öll á einn eða annan hátt um að nemendur fái tækifæri til að nýta það sem þeir læra á morgnanna við ólíkar aðstæður. Í því sambandi má nefna námskeiðið „Búðarall", þar sem nemendur þurfa að leysa verkefni í verslunum á Ísafirði, „Upplestrarnámskeið" sem Halldóra Björnsdóttir leikona hafði umsjón með auk „Skyndihjálparnámskeiðs" á íslensku sem Bryndís Friðgeirsdóttir sá um.

Í ágúst fara svo fram nokkur íslenskunámskeið til viðbótar. Líkt og undanfarin ár tekur Háskólasetrið á móti 85 manna hópi, Erasmus og Nordplus skiptinema, sem dvelur að Núpi í Dýrafirði í þrjár vikur við íslenskunám. Jafnframt verður boðið upp á þriggja vikna námskeið á Ísafirði auk tveggja vikna framhaldsnámskeiðs, vikunámskeiðs og námskeið um Gísla sögu og forníslensku. Allar upplýsingar um námskeiðin eru aðgengilegar á vefsíðu námskeiðanna.