Vel heppnuð vettvangsferð
Mánudaginn 1. september fór nýr hópur námsmanna í haf- og strandsvæðatjórnun í vettvangsferð í Jökulfirði og Ísafjarðardjúp. Vettvangsferðin var liður í inngangsnámskeiðinu Iceland‘s Environment and Natural Resources sem staðið hefur yfir síðastliðnar tvær vikur. Silgt var með farþegarbátnum Ingólfi hjá Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar og komið við á Hesteyri og í Vigur. Í Vigur fengu nemendur dýrindis kaffiveitingar hjá staðarhöldurum.
Í ferðinni var náttúra svæðisins kynnt fyrir nemendum auk þess sem fjallað var um menningararfleifð svæðisins. Þá var tækifærið einnig nýtt til að kynna fyrir þessum nýja námsmannahópi þær fjölbreyttu lokaritgerðir sem útskrifaðir nemendur hafa unnið á svæðinu. Án efa hefur það sáð fræjum í hugum nemenda um rannsóknarefni sem hægt er að vinna hér á Vestfjörðum. Að ferðinni lokinni var svo kafað dýpra í öll umfjöllunarefni ferðarinnar í kennslustofunni.
Náttúran skartaði sínu fegursta í ferðinni og á innan við klukkutíma hafði hópurinn séð hvali, seli og ref. Einhver í hópnum hafði á orði að þetta væri ótrúlegt og spurði hvort Norðurljósin myndu birtast hópnum næst. Einnig mátti heyra á nemendum að þeir veltu því fyrir sér hvað þeir hefðu verið að gera einmitt þennan dag ef annað nám hefði orðið fyrir valinu t.d. í stórborg.