Vel heppnuð rástefna um íslenskt þjóðfélag
Dagana 13.-14. maí fór fram fjórtánda ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið í Háskólasetri Vestfjarða. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var „Samfélag og náttúra – stál í stál eða hönd í hönd?“ Þetta er í þriðja sinn sem Háskólasetur Vestfjarða heldur ráðstefnuna en ýmsar háskólastofnanir á Íslandi skiptast á að halda hana. Reyndar gekk ekki þrautalaust að halda þá fjórtándu í röðinni því heimsfaraldurinn varð til þess að henni var tvívegis frestað.
Það var því sannarlega kominn tími til að þessi góði hópur fræðimanna á sviði félagsvísinda kæmi saman til að bera saman bækur sínar. Rástefnan var opinn almenningi og var ánægjulegt að sjá heimamenn taka þátt í dagskránni. Sérstakar þakkir fá þeir fjölmörgu heimamenn sem tók að sér málstofustjórn.
Opnunarfyrirlestrar rástefnunnar fóru fram í Edinborgarhúsinu og að þeim loknum var haldið áfram í þremur málstofum þar. Á föstudaginn var svo haldið í vettvangsferð til Bolungarvíkur þar sem safnið í Ósvör var heimsótt og litið við á skrifstofum Bláma og Djúpsins. Á laugardeginum fóru málstofur svo fram í Háskólasetrinu og endað á skemmtilegu Júróvisjónpartíi og kosningavöku hjá Vestfjarðastofu.
Háskólasetur Vestfjarða þakkar þátttakendum kærlega fyrir komuna og við hlökkum öll til að halda ráðstefnun aftur síðar.