fimmtudagur 31. maí 2018

Vel heppnuð ljósmyndasýning vísindamanna

Síðastliðinn þriðjudag opnaði sýning með ljósmyndum af vettvangi fræða og vísinda á Vestfjörðum í Bryggjusal Edinborgarhússins. Hugmyndin á bak við sýninguna er að gefa almenningi færi á að kynnast þeim fjölbreyttu rannsóknum sem fram fara hér á svæðinu og sjá fólkið sem stendur að þeim og býr og starfar hér á Vestfjörðum. Sýningunni er hleypt af stokkunum af hóp fræði- og vísindamanna á Vestfjörðum sem hafa tekið höndum saman og stofnað hóp sem kallast Rannsóknarumhverfi Vestfjarða. Markmið hópsins er að auka samvinnu milli fræðimanna og fræðasviða sem og að koma rannsóknum á framfæri til almennings.

Síðasti opnunardagur sýningarinnar í Bryggjusal er í dag, fimmtudaginn 31. maí, en sýningin opnar aftur á mánudag í versluninni Hamraborg. Þá mun sýningin einnig ferðist um Vestfirði í sumar og verður það auglýst betur síðar. Einnig eru uppi hugmyndir um að sýningin verði gerð aðgengileg á vefnum þegar fram líða stundir.

Á sýningunni getur að líta fjölda ljósmynda sem endurspegla þessa fjölbreytni og spanna rannsóknirnar fræðasvið allt frá þjóðfræði og kennslufræði yfir í náttúru- og læknavísindi.

Verkefnið Rannsóknarumhverfi Vestfjarða hlaut hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða.


1 af 3