þriðjudagur 29. september 2015

Vel heppnað málþing um sjóstangveiði á norðurslóðum

Háskólasetur Vestfjarða stóð fyrir málþingi á laugardag þar sem sjónum var beint að umsvifum og áhrifum sjóstangveiðiferðaþjónustu á norðlægum slóðum. Gagnleg skoðanaskipti urðu um ólíka fyrirlestra málþingsins og bar þátttakendum saman um að góður grundvöllur væri fyrir frekari vexti greinarinnar á Vestfjörðum. Hægt er að nálgast glærukynningar málþingsins hér.

Tveir fyrirlesarar frá Noregi, Trude Borch og Keno Ferter, sóttu Ísafjörð heim af þessu tilefni. Trude er sérfræðingur og ráðgjafi Aqua-niva í Tromsö en hún fjallaði um uppbyggingu og hagræn áhrif sjóstangveiðigreinarinnar í Noregi sem hún hefur rannsakað um árabil. Keno er doktor í sjávarlíffræði og starfar við norsku Hafrannsóknastofnunina og Háskólann í Bergen. Hann hefur rannsakað áhrif sleppinga í sjóstangveiði við strendur Noregs með það fyrir augum að stuðla að því að fiskurinn lifi af sleppingarnar. Í erindinu fór hann yfir niðurstöður rannsókna sinna og velti því m.a. upp hvort og í hvaða mæli fiski væri sleppt við sjóstangveiði hér á landi.

Auk norsku sérfræðinganna voru fimm erindi flutt af Íslendingum sem fjölluðu um efnið frá ólíkum hliðum. Íris Hrund Halldórsdóttir, ferðamálafræðingur, greindi frá vettvangsrannsókn sem hún vann á Vestfjörðum og miðaði að því að skoða vöxt og viðgang greinarinnar. Athygli vakti að umfangið hafði lítið breyst frá árinu 2008 en fyrstu sjóstangveiðiferðamennirnir komu til Vestfjarða árið 2006.

Silja Gunnarsdóttir, meistaranemi í ferðamálafræði, fjallaði um sjóstangveiði í samhengi við frumkvöðlafræði og Lilja Magnúsdóttir, verkefnastjóri Matís á Patreksfirði fjallaði um gæði aflans sem berst á land frá sjóstangveiðibátunum. Steinþór Bjarni Kristjánsson, framkvæmdastjóri Iceland Pro Fishing, fór m.a. yfir margfeldiáhrifin af starfsemi fyrirtækis síns og færði rök fyrir því að starfsemin skiptir máli fyrir vestfirskt atvinnulíf. Að endingu fjallaði Þorsteinn Másson, sjómaður og stjórnarmaður í Ferðamálasamtökum Vestfjarða um samfélagsleg áhrif sjóstangveiðanna á Vestfjörðum.

Líflegar umræður urðu um fyrirlestrana og var m.a. bent á nauðsyn þess að fjölga afþreyingarmöguleikum fyrir ferðamennina. Samsetning hópanna væri hægt en bítandi að breytast frá því að vera nær einvörðungu karlar. Fleiri fjölskyldur væru farnar að leggja leið sína til Íslands í tengslum við þessa tegund ferðaþjónustu.

Hér má nálgast nokkrar ljósmyndir sem teknar voru á málþinginu.


Fyrirlesarar á málþinginu ásamt Sigríði Ó. Kristjánsdóttur fundarstjóra og Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs.
Fyrirlesarar á málþinginu ásamt Sigríði Ó. Kristjánsdóttur fundarstjóra og Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs.