fimmtudagur 6. mars 2014

Vaxtasprotar

Föstudaginn 7. mars munu starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Ísafirði kynna námskeiðið Vaxtasprota, sem fer af stað á Vestfjörðum um miðjan mars.

Vaxtarsprotar samanstendur af 38 stunda námskeiði um rekstur fyrirtækja með áherslu á þróun hugmynda, markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Námskeiðið verður kennt að mestu leyti í gegnum tölvur og reiknað er með um 17 skiptum, 2-3 tíma í senn. Þátttakendur sitja við tölvur á heimilum/skrifstofum, sjá fræðsluefni á skjá og eru í stöðugu símasambandi við kennara, geta spurt og tekið þátt í umræðum. Auk kennslustunda verða fjórar vinnusmiðjur þar sem þátttakendur geta komið og fengið aðstoð leiðbeinenda varðandi hugmyndir sínar.

Verkefnið er opið öllum íbúum á Vestfjörðum, óháð eðli viðskiptahugmynda, atvinnugreinum eða reynslu þátttakenda á sviði atvinnurekstrar. Þátttakendur vinna með eigin viðskiptahugmyndir. Fulltrúum starfandi fyrirtækja er velkomið að taka þátt með það að markmiði að vinna að frekari framþróun eða mótun nýjunga í rekstri sínum.

Arna Lára Jónsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir munu kynna námskeiðið.

Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.