föstudagur 26. mars 2010

Útskriftarnemi sest að á Skagaströnd

Jacob Kasper lauk nýverið Master of Resource Managment gráðu sinni í Meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Snemma á þessu ári tók hann svo við sameiginlegri rannsóknarstöðu við Hafrannsóknarstofnun Íslands og sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd.

Jacob er Bandaríkjamaður og lauk grunnnámi frá Bates Collage og meistaragráðu í líffræði frá Harvard háskóla áður en hann hóf nám við Háskólasetur Vestfjarða haustið 2008. Sem nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun vann hann að meistaraprófsverkefni sínu hjá Hafrannsóknarstofnun en í því rannsakaði hann ónýttar uggfiskategundir á Íslandi. Að náminu loknu var hann svo ráðinn til að vinna að tveimur rannsóknarverkefnum með aðstöðu hjá BioPol á Skagaströnd. Rannsóknir hans þar snúa annarsvegar að stofnstærðarmati og líffræði hrognkelsis og hinsvegar að fæðu og aldri sela í Húnaflóa.

Það er sérstaklega ánægulegt fyrir Háskólasetrið að sjá nemendur sína finna störf við hæfi að námi loknu. Háskólasetrið óskar Jacob Kasper og fjölskyldu hans alls hins besta í framtíðinni.

Jacob við störf á Skagaströnd.
Jacob við störf á Skagaströnd.