föstudagur 30. nóvember 2012

Útnefning fastra gestakennara

Á næstu misserum mun Háskólasetrið útnefna fasta gestakennara við meistarnámið í Haf- og strandsvæðastjórnun. Slíkar útnefningar geta náð til kennara, leiðbeinenda og ráðgjafa sem hafa í gegnum árin sýnt að þeir láti sig framþróun meistaranámsins, Háskólasetursins og Vestfjarða í heild, varða. Markmið útnefninganna er að treysta þau bönd sem skapast hafa í gegnum árin og tryggja þannig frekari framgang meistaranámsins.

Fyrstur til að hljóta slíka útnefningu er Dr.des. Brad Barr, en hann hefur stundað kennslu, leiðbeiningar og prófdæmingar við meistaranámið um árabil. Af því tilefni undirritað Dr.des. Barr og Dr. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, útnefningarbréf í hádeginu í dag rétt fyrir Vísindaport.

Fastir gestakennarar munu taka þátt í og leggja sitt af mörkum til mennta- og rannsóknaumhverfis Háskólasetursins og Vestfjarða. Hlutverk þeirra getur einnig falist í því að koma fram sem fulltrúar Háskólaseturs Vestfjarða í tengslum við ráðstefnur, málþing, vinnufundi og aðrir faglega viðburði. Þá eru fastir gestakennarar einnig hvattir til að gera meistaranámið í Haf- og strandsvæðastjórnun sýnilegt og vekja almennt á Háskólasetrinu og þeim rannsóknartækifærum sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Einnig er gert ráð fyrir að þessir aðilar veiti Háskólasetrinu ráðgjöf og álit um mál sem snúa að þeirra sérþekkingu. Ráðgjöf og álit af þessu tagi geta snúið að þróun meistaranámsins, en einnig að þátttöku Háskólasetursins í vísindastarfi sem hefur þýðingu fyrir Vestfirði og Ísland, með það að markmiði að Háskólasetrið eflist sem faglegur og fræðilegur aðili á sínu sérsviði.

Við erum þess fullviss að tengslamyndun á borð við þessa muni reynast heillavænleg fyrir Háskólasetrið og fyrir Vestfirði í heild og vonum við jafnframt að tengsl þessara aðila við Háskólasetrið muni reynast þeim gefandi og árangursrík

Frá útnefningu fyrsta fasta gestakennarans. Brad Barr og Peter Weiss handsala útnefningarbréfið.
Frá útnefningu fyrsta fasta gestakennarans. Brad Barr og Peter Weiss handsala útnefningarbréfið.