fimmtudagur 28. júní 2007

Útibú frá Háskólanum á Bifröst opnað á Ísafirði

Í dag kl. 15:00 verður nýtt útibú Háskólans á Bifröst opnað á Ísafirði. Útibúið verður til húsa í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða. Martha Lilja Olsen, kennslustjóri Háskólasetursins, mun sjá um útibú Háskólans á Bifröst. Martha Lilja þekkir vel til skólastarfs á Bifröst en hún útskrifaðist með MA gráðu í Evrópufræðum frá skólanum árið 2006. Með tilkomu útibúsins á Ísafirði verður Vestfirðingum gert auðveldara að kynna sér starfsemi og stunda nám við Háskólann á Bifröst. Þar verða veittar upplýsingar um nám og kennslu og er þessi þjónusta ætluð nýjum nemendum sem og þeim sem þegar stunda þar ýmist stað- eða fjarnám.

Þann 7. júní síðastliðinn var opnað sambærilegt útibú á Egilsstöðum í tengslum við Þekkingarmiðstöð Austurlands og unnið er að opnun fleiri útibúa.

Nú stunda á annað hundrað manns fjarnám til BS gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst auk þess sem fimm af sex námsleiðum í meistaranámi eru kenndar í blöndu af fjar- og staðnámi. Haustið 2007 verður í fyrsta sinn boðið upp á fjarnám við frumgreinadeild skólans og hefur sú nýbreytni vakið mikla athygli og fjöldi umsókna borist. Þá býður Háskólinn á Bifröst nú í haust í fyrsta sinn upp á rekstrarnám fyrir rekstraraðila smærri fyrirtækja, svokallað RSF. Námið má stunda með vinnu og það nýtist frá fyrsta degi í rekstri fyrirtækja.

Útibú Háskólans á Bifröst í Háskólasetri Vestfjarða verður opið alla fimmtudaga frá klukkan 15.00 – 17.00.