föstudagur 29. júní 2007

Útibú Háskólans á Bifröst

Útibú Háskólans á Bifröst á Ísafirði var opnað í gær. Útibúið verður til húsa og í umsjón Háskólaseturs Vestfjarða. Tilgangurinn með opnun slíks útibús er að þjónusta nemendur Háskólans á Bifröst og þá er um að ræða bæði væntanlega nemendur og þá sem nú þegar stunda nám á Bifröst. Útibúið verður opið á fimmtudögum kl. 15:00-17:00 og geta nemendur komið á þeim tíma og fengið upplýsingar um nám á Bifröst, leiðbeiningar um notkun á fjarkennsluvef Bifrastar og hvað eina sem nemendur gætu þurft á að halda vegna fjarnáms við Bifröst. Athygli skal einnig vakin á því að öll aðstaða til náms sem til staðar er í Háskólasetrinu stendur nemendum Háskólans á Bifröst opin eins og öllum öðrum háskólanemum á svæðinu.

Við Háskólann á Bifröst er nú í fyrsta skipti í boði fjarnám við frumgreinadeildina. Frumgreinanámið er nokkurs konar aðfararnám eða undirbúningsnám fyrir háskólanám fyrir þá sem ekki hafa stúdentspróf. Einnig býður Bifröst upp á fjarnám til BS gráðu í viðskiptafræði og svo eru Bifrestingar í fararbroddi hvað varðar fjarnám á meistarastigi en allar leiðir skólans í meistaranámi nema ein eru í boði í fjarnámi.

Háskólinn á Bifröst býður einnig upp á nám á sviði símenntunar, þ.e. fyrir fólk sem er ekki endilega að leita að háskólanámi og hefur ekki stúdentspróf. Hér er um mjög áhugaverðar styttri námleiðir að ræða og eru þessar námsleiðir í boði í fjarnámi. Í fyrsta lagi má nefna nám sem heitir Máttur kvenna, en margar konur á Vestfjörðum kannast við það nám og er nú komið framhaldsnámskeið fyrir þær sem hafa lokið þessu námi, Máttur kvenna II. Einnig er í boði nám sem kallað er rekstur smærri fyrirtækja og er ætlað þeim sem eru í fyrirtækjarekstri og vilja bæta sig og rekstur fyrirtækisins. Að lokum má svo nefna diplomanám í verslunarstjórnun sem einnig er í boði í fjarnámi.

Eins og upptalningin hér að ofan sýnir er fjölbreytnin og möguleikarnar í fjarnámi alltaf að aukast. Þeir sem hafa áhuga á námi á þeim sviðum sem Háskólinn á Bifröst býður upp á ættu að skoða það sem í boði er. Nú er gott tækifæri til að skella sér í námið sem þig hefur lengið langað til að fara í og þú þarft ekki að flytja að heiman til að gera það.

Á myndinni eru Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, væntanlegur fjarnemandi við Háskólann á Bifröst, Rebekka Samper markaðsstjóri Háskólans á Bifröst, Hulda Rafnarsdóttir verkefnisstjóri Símenntunar Háskólans á Bifröst, Martha Lilja Olsen kennslustjóri Háskólaseturs og umsjónarmaður útibús Bifrastar á Ísafirði og Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður stjórnar Háskólaseturs Vestfjarða.