miðvikudagur 30. janúar 2013

Útbreiðsla sandrækju á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 31. janúar kynnir Marla Koberstein, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun, lokaritgerð sína um útbreiðslu sandrækju á Vestfjröðum og áhrif hennar á uppeldisstöðvar skarkola. Verkefnið ber titilinn Expansion of the brown shrimp Crangon crangon L. onto juvenile plaice Pleuronectes platessa L. nursery habitat in the Westfjords of Iceland. Kynningin fer fram á ensku í gegnum Skype netsíma og hefst klukkan 16:00 í stofu 1-2 í Háskólasetri Vestfjarða. Allir áhugasamir eru velkomnir.

Leiðbeinandi verkefnisins er, Jónas Páll Jónasson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og doktorsnemi við Háskóla Íslands, en prófdómari er Dr. Guðrbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Varar sjávarrannsóknarseturs við Breiðafjörð.

Útdráttur
Sandfjörur gegna mikilvægu hlutverki sem uppeldisslóðir fyrir ungviði fiska. Öll röskun á slíkum svæðum er líkleg til að skaða stofnana á viðkvæmum lífsstigum. Erfitt er að greina áhrif af ágengum tegundum í sjó en hlýnandi loftslag getur auðveldað flutning og viðgang nýrra tegunda. Árið 2003 varð fyrst vart við sandrækju Crangon crangon L.við Íslandsstrendur. Rétt er að gefa henni gaum því í upprunalegum heimkynnum er sandrækjan einkennistegund sandfjara og mikilvægur afræningi á ungviði flatfiska, sér í lagi skarkola Pleuronectes platessa L. Markmið þessarar ritgerðar er að 1) kanna útbreiðslu og hugsanlega stækkun á útbreiðslu svæði sandrækju á Vestfjörðum. 2 ) skoða og meta hlutverk sandstranda á Vestfjörðum sem kjöruppeldisstöðvar fyrir skarkolann sem er mikilvæg nytjategund, en aflinn hefur dregist nokkuð saman undanfarin ár. Til að svara settum markmiðum var sýnum safnað dagana 24 - 31 júlí með bjálkatrolli á 11 sandströndum. Niðurstöðurnar benda til að útbreiðsla sandrækju nái nú að minnsta kosti norður í Bolungarvík. Hæsti þéttleiki sandrækju var á Brjánslæk (26.67 einstaklingar á 100m2), en nokkrar kynslóðir voru greinanlegar sem bendir til þess að stofninn er að fjölga sér. Hár þéttleiki af skarkola (hærri en 200 einstaklingar á 100m2) var ennfremur á þremur stöðvum. Niðurstöðurnar veita grunnupplýsingar um mögulega hættu sem skarkolaseiðum gætu stafað af sandrækju á þessum slóðum. Rannsóknin skilgreindi ennfremur áður óþekkt mikilvæg uppeldissvæði fyrir skarkola á Vestfjörðum sem hjálpar til við að vernda og nýta þennan mikilvæga nytjafisk.

Marla Koberstein.
Marla Koberstein.