mánudagur 16. febrúar 2009

Úrlausn deilumála í auðlindastjórnun

Fólksfjölgun síðastliðinna 200 ára hefur leitt til rýrnun náttúruauðlinda og aukins álags á vistkerfi jarðar. Samtímis hafa deilur ólíkra hagsmunahópa um nýtingu auðlinda magnast og orðið flóknari úrlausnar. Á allra síðustu áratugum hefur orðið vakning um að lausn slíkra deiluefna sé nauðsynlegt ferli til að ná sáttum um nýtingaráætlanir sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Haf- og strandsvæði hafa fengið mikla umfjöllun í þessu tilliti en þar er lagalegur rammi og stjórnsýsla miklu skemmra á veg komin en á landi. Enn fremur veldur hreyfanleiki vatnsins ákveðnum vandkvæðum og ófyrirséðum deilumálum.

 

Mánudaginn 16. febrúar hófst námskeið sem fjallar um ofangreind málefni við Háskólasetur Vestfjarða og er það hluti af meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Kennari námskeiðsins er Ronald Wennersten prófessor og forstöðumaður Iðnvistfræðideildar Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi. Iðnvistfræði er frekar nýtt rannsóknasvið þar sem ný viðmið í umhverfisstjórnun eru kynnt. Í Iðnvistfræði er horfið frá því sjónarmiði að líta á athafnir manna sem eitthvað „ónáttúrulegt" sem þarf að einangra frá „náttúrulegum" ferlum í vistkerfum. Í staðinn eru skoðaðar sjálfbærar leiðir til að iðnstarfsemi og umhverfisáhrif hennar geti átt í jákvæðu víxlverkandi sambandi innan vistkerfa. Prófessor Wennersten hefur mikla reynslu af stjórnun og úrlausnum deilumála sem tengjast haf- og strandsvæðum. Hann hefur meðal annars stýrt nokkrum verkefnum um sjálfbæra þróun á vegum Evrópusambandsins. Þar á meðal stóru verkefni sem miðar að greiningu hagrænna, félagslegra og umhverfis þátta sem hafa orsakað deilur og átök Eystrasaltsríkjanna um auðlindir og nýtingu Eystrasaltsins.

 

Kennarar og nemendur í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun koma víðsvegar að úr heiminum. Kennarahópurinn samanstendur af virtum vísinda- og fræðimönnum frá Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Námsmannahópurinn er sömuleiðis afar fjölbreyttur og koma námsmennirnir frá Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Englandi og Hong Kong. Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun er því sannarlega suðupottur fræða og þekkingar um haf- og strandsvæði.

 

Nánari upplýsingar:
Heimasíða námskeiðsins
Heimasíða Iðnvistfræðideildar Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi