Upplýsingasetur um hugverkaréttindi
Í Vísindaporti föstudaginn 18. apríl mun Arnheiður Jóhannsdóttir frá Impru á Nýsköpunarmiðstöð kynna upplýsingasetur um hugverkaréttindi.
Upplýsingasetur eða Patent Library (PATLIB) hefur starfsaðstöðu í húsnæði Impru að Borgum á Akureyri. Tilgangur setursins er að auka vitund og þekkingu almennings á hugverkaréttindum með aukinni fræðslu, upplýsingagjöf og bættri aðstöðu fyrir almenning til að kynna sér slík málefni.
PATLIB upplýsingasetur eru starfrækt um gjörvalla Evrópu og veita áhugasömum aðilum tækifæri til að kynna sér upplýsingar um einkaleyfi og tengd málefni. Á hverju PATLIB upplýsingasetri er þrautreynt starfsfólk sem aðstoðar einstaklinga og fyrirtæki á fjölmörgum sviðum hugverkaréttinda.