miðvikudagur 16. janúar 2013

Upplifun af sérkennslu tekin fyrir í Vísindaporti

Föstudaginn 18. janúar heldur Vísindaport áfram eftir jólahlé. Fyrst til að ríða á vaðið er Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Hún mun fjalla um niðurstöður meistaranámsritgerðar sinnar í menntunarfræðum sem ber titilinn ,,Lost case" - Upplifun fimm ungra manna af sérkennslu í grunnskóla.

Um er að ræða eigindlega rannsókn sem snerist um að fá sýn fimm einstaklinga sem voru í sérkennslu í grunnskóla, sem jafnframt fól í sér aðgreiningu frá öðrum nemendum, á gagnsemi þessarar sérkennslu og á námsumhverfið sem þeim var búið. Fjallað verður um upplifun af því að vera settur í sérstakan bekk, mat á gagnsemi sérkennslu sem þessarar, þróun sjálfsmyndar í tengslum við sérkennslu, félagsleg tengsl og viðmið um nám og hegðun.

Jóna Benediktsdóttir hefur starfað að skólamálum á Ísafirði og í Súðavík undanfarin 20 ár. Hún lauk B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1994 og MA gráðu í menntunarfræðum með áherslu á sérkennslu frá Háskóla Íslands árið 2012.
Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.

Jóna Benediktsdóttir
Jóna Benediktsdóttir