þriðjudagur 19. júní 2007

University of Manitoba/The Icelandic Field School í heimsókn hjá HSvest

Síðustu tíu daga hafa dvalið hjá Háskólasetri Vestfjarða tíu námsmennn frá Háskólanum í Manitoba, Canada. Þetta er einn af þremur námsmannahópum frá Ameríku, sem mun dvelja hér í sumar hjá Háskólasetri, en þar sem þetta er einingarbær námsferð hjá þessum námsmönnnum, taka þeir námskeið um leið og þeir ferðast og kynnast öðrum löndum og öðrum viðhorfum.

Þessi hópur hafði kennara sína með sér, enda The Icelandic Field School frá Íslenskudeild Háskólans í Manitobu. Allir hóparnir taka tveggja daga dagskrá um Gísla sögu, með fræðilegum inngangi, vettvangsferðir í Haukadal og Geirþjófsfjörð og einkasýningu á leikritinu um Gísla Súrsson með Elfari Loga Hannnessyni. Auk þess tóku námsmennirnir hér námskeið í goðafræði og að sjálfsögðu í íslensku. Ekki verður betur séð en að námsmönnunum frá Kanada hafi liðið vel á Vestfjörðum, en þeir bjuggu í Holti/Önundafirði, fóru í Vigur og í Hesteyri. Í gær sótti hópurinn síðasta fyrirlesturinn í Háskólasetrinu og veðrið lék við þau eins og aðra á Vestfjörðum þessa dagana.