fimmtudagur 13. mars 2014

Umhverfisvottun á Vestfjörðum

Í Vísindaporti föstudaginn 14. mars, mun Lína Björg Tryggvadóttir verkefnisstjóri hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða kynna verkefnið Umhverfisvottun á Vestfjörðum. Öll níu sveitarfélög Vestfjarða standa að verkefninu en Fjórðungssamband Vestfjarða stýrir því.

EarthCheck eru viðurkennd vottunarsamtök með öfluga ástralska háskóla sem bakhjarla. Þau eru einu samtökin sem fram til þessa hafa umhverfisvottað starfsemi sveitarfélaga en þau votta einnig starfsemi fyrirtækja. Samtökin byggja á hugmyndafræði Staðardagskrár 21 um ábyrga stjórnun og sjálfbæra þróun. Sveitarfélög sem vinna samkvæmt Staðardagskrá 21 sjá sjálf um að setja sér markmið og mæta þeim.

Umhverfisvottun felur aftur á móti í sér úttekt óháðs þriðja aðila og því fylgir mun meira aðhald og eftirfylgni. Þessi aðferð leiðir til betri árangurs í umhverfisvinnu á svæðinu auk þess sem það gerir vinnu sveitarfélaganna í átt að sjálfbærni trúverðugri. Umhverfisvottun auðveldar einnig markaðssetningu á svæðinu og þannig verður ávinningur atvinnu- og mannlífs mikill.

Í dag hafa sveitarfélögin fengið brons Benchmarking sem staðfestir að þeir þættir sem kannaðir voru komu flestir vel yfir viðmiðunarlínu EarthCheck.

Vísindaport hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.