Umhverfisráðherra fundaði með nemendum Háskólaseturs
Á ferð sinni um Vestfirði í síðustu viku heimsótti nýskipaður umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Háskólasetur Vestfjarða. Hann er ekki ókunnugur í Háskólasetrinu því hann var kennari í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun á árunum 2011 til 2013. Guðmundur Ingi óskaði því sérstaklega eftir því að hitta núverandi nemendur í ferð sinni vestur á dögunum og var Háskólasetrinu bæði ljúft og skylt að verða við því.
Þrjátíu manna hópur nemenda á fyrsta og öðru ári, auk útskrifaðra nemenda sem búsettir eru á Vestfjörðum og starfsmönnum Háskólaseturs tóku á móti ráðherra og aðstoðarfólki hans að kvöldi dags fimmtudaginn 11. janúar. Umræðurnar voru óformlegar og fóru fram yfir pitsu og smá bjór með blessun ráðherra. Guðmundur Ingi ræddi um akademískan bakgrunn sinn og starfsvettvang fyrir ráðherradóminn. Einnig ræddi hann helstu verkefnin sem liggja fyrir í ráðuneytinu á næstu árum og gaf svo nemendum orðið fyrir ábendingar, spurningar og jafnvel ráðleggingar. Helstu umræðuefni nemenda snerust um loftslagsbreytingar og losunarskerðingar, þjóðgarða og verndarsvæði, plast í hafinu, ágengar tegundir og samband aukinnar ferðamennsku og náttúruverndar.
Þetta skemmtilega kvöld var því í raun ein allsherjar samantekt á því sem nemendur hafa fræðst um áður en þeir komu til Íslands og því sem þeir hafa fengist við frá komunni til landsins. Þær séríslensku aðstæður sem þarna komu upp hafa án efa verið ævintýri í sjálfu sér fyrir nemendur enda vandséð að víða annarsstaðar í heiminum fái framhaldsnemendur tækifæri til að verja kvöldstund með æðsta embættismanni þess málaflokks sem stendur þeim næst.