föstudagur 9. janúar 2015

Tvö opin vettvangsnámskeið á sunnanverðum Vestfjörðum

Í vor býður Háskólasetur Vestfjarða upp á tvö opin vettvangsnámskeið á sunnanverðum Vestfjörðum í tengslum við námsleiðina Sjávartengd nýsköpun. Fyrra námskeiðið snýst um nýsköpun í fiskeldi og fer fram á Tálknafirði en það síðara fjallar um nýsköpun í nýtingu hafsins og fer fram á Reykhólum.

Bláa hagkerfið er löngu hætt að snúast aðeins um veiðar og vinnslu. Á Vestfjörðum hefur fiskeldi t.d. rutt sér til rúms og í notkun þangs, þara og annarra nytja stranda leynast möguleikar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar. Aukin verðmæti skapast oft með því að tengja bláa hagkerfið við það græna.

Námskeiðin tvö njóta góðs af nálægð við atvinnulíf tengt viðfangsefnunum og eru fyrirtækjaheimsóknir hluti af náminu. Nemendur fá innsýn í möguleika og áskoranir fiskeldis í köldum sjó í fyrra námskeiðinu, en í því síðara verður sjónum beint að nýsköpun í sjálfbærri nýtingu auðlinda strandsvæða. Í lok hvors námkeiðs vinna nemendur að viðskiptaáætlun fyrir nýsköpunarverkefni að eigin vali. 

Frekari upplýsingar um námskeiðin má finna á vefsíðu þeirra.

Kennarar beggja námskeiða:
Dr. Peter Krost, Kiel, líffræðingur og meðeigandi fyrirtækisins CRM, Coastal Research and Management
María Maack, líffræðingur og sérfræðingur í visthagfræði


Tilvalin endurmenntun fyrir alla sem vinna í greininni og vilja sjá fram í tímann.


Frekari upplýsingar um námsleiðina Sjávartengd nýsköpun má finna á vefsíðu þess.