þriðjudagur 17. júlí 2007

Tveir nýir starfsmenn Háskólaseturs taka til starfa í haust

Háskólasetrið auglýsti þrjár nýjar stöður í maí, umsóknarfresturinn var í júni. Samtals sóttu 15 manns um 3 störf, þar af 10 utan Vestfjarða.

Um starf verkefnisstjóra voru um­sækjendur samtals átta. Setrið hefur ákveðið að ráða Inga Björn Guðnason til starfsins. Ingi Björn er bókmenntafræðingur að mennt, hefur mikla reynslu af margskonar skrifum og hefur verið virkur í fjölmiðlaumræðum um bókmenntir. Hann vinnur núna við hús skáldsins/Gljúfrasteini, þar sem hann hefur öðlast umtalsverða reynslu af skipulagningu og framkvæmd fjölbreyttra menningarviðburða. Ingi Björn mun taka til starfa í nóvember.

Um starf sérfræðings á alþjóðasviði voru umsækjendur samtals fimm. Setrið hefur ákveðið að ráða Sigurð Arnfjörð Helgason til starfsins. Sigurður var áður athafnamaður í veitingahúsageiranum, en síðustu árin hefur hann dvalið í Bandaríkunum við nám, sem hann hefur nýlokið MBA/Master of Business Administration-gráðu. Eins og nafnið gefur til kynna á hann rætur fyrir vestan og er gamall Núpverji. Sigurður Arnfjörð Helgason mun taka til starfa í september.

Um stöðu fagstjóra á sviði Haf- og Strandsvæðastjórnunar voru umsækjendur samtals tveir, annar þeirra dró umsókn sína til baka. Ákveðið var að ráða ekki í stöðuna í bili.