þriðjudagur 22. febrúar 2022

Tvær meistaraprófsritgerðir um Vestfirði

Í vikunni fara fram tvær meistaraprófsvarnir við Háskólasetur Vestfjarða sem fjalla um vestfirsk viðfangsefni úr sitthvorri námsleiðinni við Háskólasetur Vestfjarða, Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun.

Báðar fjalla ritgerðirnar um áhrif loftslagsbreytinga á búsetu og náttúrufar á Vestfjörðum. Varnirnar eru opnar almenningi í Háskólasetri Vestfjarða en eru einnig aðgengilegar í fjarfundi (sjá nánar í hlekkjum hér að neðan).

Fimmtudaginn 24. febrúar mun Deirdre Bannan verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun. Ritgerðin ber titilinn „Climate change in the Westfjords, Iceland. A local perspective of a global problem“ eða „Loftslagsbreytingar á Vestfjörðum – Staðbundið sjónarhorn á hnattrænt vandamál.“ Markmið rannsóknarinnar er að greina loftslagsbreytingar á Vestfjörðum og meta möguleg áhrif þeirra á náttúrufar og lífsviðurværi íbúa á svæðinu.

Föstudaginn 25. febrúar mun Frances Simmons verja meistaraprófsritgerð sína í sjávarbyggðafræði. Ritgerðin ber titilinn „Heavy is the Mountain: The tension between place attachment and perceptions of hazards, climate change and place disruption, revealed through virtual walking tours in Patreksfjörður, Iceland.“ Í rannsókninni er sjónum beint að Patreksfirði og fjallað um samspilið á milli staðartengsla, náttúruváa, loftslagsbreytinga og rasks vegna varna. Rannsóknin var framkvæmd með sýndargönguferðum til að kanna sambandið milli staðartengsla og skynjunar landslags.


Ritgerðirnar tvær fjalla um vestfirsk málefni. Önnur um Patreksfjörð og hin um Vestfirði í heild sinni. Ljósmynd frá Patreksfirði: Frances Simmons.
Ritgerðirnar tvær fjalla um vestfirsk málefni. Önnur um Patreksfjörð og hin um Vestfirði í heild sinni. Ljósmynd frá Patreksfirði: Frances Simmons.