mánudagur 30. ágúst 2010

Tuttugu og fimm meistaranemar fluttir á Ísafjörð

Í dag hófst kennsla í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun hjá nýjum nemendaárgangi. Enn á ný hefur nemendum meistaranámsins fjölgað á milli ára og nú hafa tuttugu og fimm nemendur flutt á Ísafjörð til að stunda námið. Líkt og fyrr koma þeir frá ýmsum löndum og hafa fjölbreyttan akademískan bakgrunn.

Á laugardaginn var hópurinn boðinn velkominn af starfsmönnum Háskólasetursins og af námsmönnum síðasta árs. Dagurinn hófst á kynningu í Háskólasetrinu og gönguferð um bæinn. Í framhaldi af því var svo ekið að Holti í Önundarfirði og strönd Holtsoddans gengin. Að gönguferðinni lokinni var svo boðið upp á ljúffengar íslenskar pönnukökur, kaffi og kakó.

Þegar komið var aftur í Háskólasetrið funduðu nýju nemendurnir með þeim eldri sem deildu með þeim reynslu sinni af meistaranáminu og lífinu á Ísafirði. Nýju nemendurnir fengu því mikið af gagnlegum upplýsingum og virðast jafn áhugasmir og fyrri nemendur um að taka þátt í samfélaginu, t.d. í íþrótta- og tónlistarlífinu. Dagurinn endaði svo á grillveislu í porti Háskólasetursins í boði stúdentafélagsins Ægis.

 


Önundarfjörðurinn skartaði sínu fegursta þegar nýr hópurinn skoðaði sig um á Holtsodda.
Önundarfjörðurinn skartaði sínu fegursta þegar nýr hópurinn skoðaði sig um á Holtsodda.