föstudagur 13. júlí 2018

Tíu ára endurfundahópur SIT hitti núverandi vettvangsskóla á Ísafirði

Þótt Háskólasetur Vestfjarða sé ekki gömul stofnun eru ýmsir þættir í starfseminni orðnir rótgrónir. Þar á meðal eru árvissar heimsóknir vettvangsskóla School for International Training þar sem fjallað er um endurnýjanlega orkugjafa. Svo skemmtilega vildi á dögunum að hópur nemenda sem komu hingað í slíka ferð sumarið 2008 blés til endurfunda á Vestfjörðum í tilefni þess að tíu ár voru liðin frá dvöl þeirra. Ekki skemmdi fyrir að á sama tíma var vettvangsskóli SIT 2018 staddur á Ísafirði.

Nemendum vettvangsskóla ársins gafst því tækifæri til að hitta fyrirrennara sína og spyrja þá spjörunum úr um reynslu þeirra fyrir tíu árum. Margar spurningar brunnu á yngri nemendunum sem höfðu m.a. áhuga á að vita hvernig dvöl eldri nemendanna var og ekki síður hvaða áhrif Íslandsvölin hafði á námsframvindu þeirra.

School for International Training hefur komið með vettvangsskóla um endurnýjanlega orku til Háskólaseturs síðan sumarið 2007, og því var vettvangsskóli ársins sá tólfti í röðinni. Ísfirðingar hafa ekki farið varhluta af skólanum, enda dvelja nemendur hluta tímans hjá gestafjölskyldum og tengjast því heimamönnum sterkum böndum. Eftir dvölinni á Ísafirði hélt hópurinn áfram í Reykjanes við Djúp og svo suður til Reykjavíkur.

En það voru fleiri endurfundir í tengslum við heimsókn SIT í sumar. Ekki nóg með að í ár kom í fyrsta sinn endurfundahópur frá SIT því svo skemmtilega vildi til að Dave Timmons, sem var fagstjóri vettvangsskólans fyrstu árin, tók aftur í sumar að sér verkefnið. Dave Timmons vinnur fyrir SIT, en bjó á Íslandi fyrir mörgum árum, hann talar góða íslensku og er því kjörinn í þetta starf. Þetta á ekki síst við nú þegar SIT kannar möguleika á að víkka út umsvif vettvangsskólans. Mikil eftirspurn er eftir sætum í skólanum og því eru uppi ýmsar hugmyndir um staðsetningu og skipulag skólans sem snúa að því að bæta við öðrum hópi eða bæta við viðfangsefnum út fyrir ramma endurnýjanlegra orkugjafa. Hjá Háskólasetri hafa Pernilla Rein og nú nýverið Astrid Fehling verið tengiliðir Vettvangsskóla og skipulagt komu þeirra.

Háskólasetrið hlakkar til frekara samstarf við SIT og hlakkar til að taka á móti 20 ára endurfundanemum eftir 10 ár eða svo!


Tíu ára endurfundanemendur ásamt nemendum vettvangsskólans 2018.
Tíu ára endurfundanemendur ásamt nemendum vettvangsskólans 2018.