fimmtudagur 12. mars 2015

Tíu ár frá stofnfundi Háskólaseturs

Í dag eru liðin tíu ár frá því að stofnfundur Háskólaseturs Vestfjarða var haldinn að Suðurgötu 12 á Ísafirði, sem síðar varð framtíðarhúsnæði Háskólaseturs, þegar 42 stofnaðilar settu á fót sjálfseignarstofnunina Háskólasetur Vestfjarða. Starfsemi Háskólaseturs hófst svo tæpu ári síðar, eða í janúar 2006, þegar Vestra-húsið var tilbúið undir starfsemina eftir miklar breytingar. Þá þegar hafði Peter Weiss forstöðumaður hafið störf en hann var ráðinn frá ágúst 2005.

Meðal stofnaðila eru allir háskólar landsins, rannsóknarstofnanir sem tengjast Vestfjörðum eða hafa útibú hér, stofnanir í Vestrahúsinu, sveitarfélög á Vestfjörðum og fyrirtæki og stofnanir sem sinna rannsóknum, fræðslu og þróun í víðum skilningi.

Á þessum tíu árum hefur starfsemin þróast mikið. Frá upphafi hefur þjónusta við fjarnemendur á háskólastigi verið mikilvægur þáttur í starfseminni en á síðari árum hefur meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun orðið að hryggjarstykki starfseminnar.

Tilkoma Háskólaseturs breytti miklu fyrir stofnanir í Þróunarsetri, sem varð stærra og öflugra með tilkomu Háksólaseturs. Auk þess er Fræðslumiðstöð í sama húsi og nýtur Háskólasetrið góðs af nálægðinni við allar stofnanir og fyrirtæki hússins m.a. með margvíslegu samstarfi.

Fyrir fimm árum gaf Háskólasetrið út yfirlitsskýrslu um starfsemina frá upphafi til ársins 2010 sem er aðgengileg á vefnum. Á komandi vordögum er áætlað að gefa aftur út skýrslu af svipuðum toga þar sem litið er yfir farinn veg í tilefni tíu ára afmælisins.

Það má ætla að aðalfundur Háskólaseturs verði með veglegra móti í tilefni tíu ára afmælsinsi en áætluð dagsetning aðalfundarins er 22.05.2015.


Frá stofnfundinum fyrir 10 árum. Ljósmynd: www.bb.is.
Frá stofnfundinum fyrir 10 árum. Ljósmynd: www.bb.is.