miðvikudagur 28. september 2022

Tíndu 250 kg af plasti á Grænlandi

Þrír nemendur og einn kennari tóku þátt í sumarskóla UArctic í ár sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi undir yfirskriftinni Plastic in the Marine Arctic - source to solution. Þar fengu þátttakendur fræðslu um plastmengun sjávar og öðluðust betri skilning á vandamálinu, sérstaklega í Norður-Íshafi.

Þetta var í fyrsta sinn sem Háskólasetrið tók þátt í verkefni á vegum UArctic en áreiðanlega ekki það síðasta þar sem þau létu vel af reynslunni. "Þátttaka Háskólaseturs Vestfjarða í verkefnum UArctic, á borð við þennan sumarskóla, er spennandi tækifæri fyrir bæði kennara og nemendur. Háskólasetur er ein af smærri stofnunum UArctic svo það græðir virkilega á svona samstarfi. Þetta gefur nemendum okkar tækifæri til að hitta nýtt fagfólk og styrkja tengslanet sitt á þeirra sviði," segir Catherine Chambers, rannsóknarstjóri Háskólaseturs Vestfjarða.

Þátttakendur sumarskólans tíndu 250 kíló af plasti meðan á námskeiðinu stóð, skoðuðu úrgangsstöð, unnu rannsóknarvinnu á örplasti í sjófuglum og nutu leiðsagnar sérfræðinga frá nokkrum af samvinnustofnunum, þar á meðal Catherine.

"Það var gjöful reynsla fyrir mig að vinna með svona frábæru teymi leiðbeinenda, við lærðum margt hvert af öðru og það varð ennþá augljósara hversu mikið starf er óunnið í rannsóknum og kennslu á ruslmengun sjávar. Mikill áhugi meðal grunnnema sýnir þörfina á námskeiðum í sjávarruslmengun á meistaranámssstigi svo við erum þegar byrjuð að skoða hvernig við getum nýtt neistann sem kviknaði í sumarskólanum."

 

Myndir frá GRID-Arendal
Myndir frá GRID-Arendal
1 af 7