föstudagur 1. febrúar 2008

Tímamótasamningur undirritaður

Í gærkvöldi undirrituðu Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða samstarfssamning vegna meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun sem hefst við Háskólasetur næstkomandi haust. Samningurinn markar tímamót því með honum er tryggt að í fyrsta sinn verður heil námsleið á háskólastigi kennd frá upphafi til enda í staðbundnu námi á Vestfjörðum.  Öll kennsla námsleiðarinnar mun fara fram á Ísafirði við Háskólasetur Vestfjarða en innritun, gæðaeftirlit og útskrift verður í höndum Háskólans á Akureyri.


Í ávarpi sínu kom Þorsteinn Gunnarsson inn á hve farsælt samstarf Háskólans á Akureyri við Vestfirði hefur verið í gegnum tíðina,  en fyrir næstum tíu árum eða haustið 1998 hófu fyrstu nemendurnir á Ísafirði nám í fjarnámi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Í máli Þorsteins kom fram að í dag stunda 40 nemendur Háskólaseturs fjarnám við Háskólann á Akureyri við hinar ýmsu deildir skólans. Enn fremur sagði Þorsteinn: „Samhliða uppbyggingu fjarnámsins hef ég lengi haft áhuga á því að staðbundinni háskólakennslu verði komið á fót á Ísafirði.  Hér fara saman sérstakar aðstæður frá náttúrunnar hendi og einstök þekking.  Úr þessum þáttum er hægt að skapa nýja þekkingu sem leggur mikilvægan skerf til íslensks og alþjóðlegs háskólasamfélags. Staðbundin háskólakennsla styrkir auk þess innviði vestfirsks samfélags."

Það er ljóst að hér er um mikilvægt skref í starfsemi og uppbyggingu Háskólaseturs Vestjarða að ræða. Haustið 2008 má búast við að nemendur í staðbundnu námi við Háskólasetur verði orðnir 40-50 fyrir utan þá háskólanema sem stunda fjarnám við setrið.


Peter Weiss og Þorsteinn Gunnarsson undirrita samstarssamning um haf- og strandsvæðastjórnun
Peter Weiss og Þorsteinn Gunnarsson undirrita samstarssamning um haf- og strandsvæðastjórnun
1 af 2